Ekki viljað sækja um framlengingu vegabréfa

Þorsteinn Gunnarsson.
Þorsteinn Gunnarsson. Skjáskot/RÚV

Þorsteinn Gunnarsson, sviðsstjóri hjá Útlendingastofnun, segir að hægt hefði verið að flytja egypsku Kehdr-fjölskylduna úr landi í ársbyrjun, fyrir heimsfaraldur kórónuveiru.

Til þess hefðu foreldrarnir þó þurft að sækja um framlengingu vegabréfa tveggja barnanna, en þeir ekki verið viljugir til þess.

Þess vegna hefðu yfirvöld þurft að óska eftir nýjum vegabréfum frá egypskum yfirvöldum og það ferli hefði tekið marga mánuði, en nýju vegabréfin bárust í ágúst.

„Við getum ekki þvingað fólk til þess að vinna með okkur,“ sagði Þorsteinn í Kastljósi RÚV í kvöld.

Muni ekki afgreiða beiðnirnar

Egypsku Kehdr-fjölskyldunni verður vísað úr landi á morgun. Gagnrýnt hefur verið að fjölskyldunni sé vísað á brott eftir langa veru á Íslandi þar sem börnin hafi aðlagast nýjum aðstæðum.

Fjölskyldan sótti um hæli 7. ágúst 2018 og synjaði Útlendingastofnun umsókninni 25. júlí 2019. Synjunin var staðfest af kærunefnd útlendingamála 14. nóvember sama ár. Kærunefndin hafnaði því í gær að fresta réttaráhrifum í máli fjölskyldunnar.

Nefndin hefur einnig lýst því yfir að hún muni ekki afgreiða þær tvær beiðnir sem eru á borði hennar um endurupptöku málsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert