Óglatt yfir ummælum Dóru um Eyþór

Vigdís Hauksdóttir.
Vigdís Hauksdóttir. mbl.is/​Hari

„Mér er óglatt yfir þessum ummælum sem er sífellt verið að bera á borð fyrir okkur borgarfulltrúa,“ sagði Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins, á borgarstjórnarfundi fyrr í dag.

Þar var hún að bregðast við ummælum Dóru Bjartar Guðjónsdóttur, oddvita Pírata, sem sagði að Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins, „virðist hafa fengið fleiri hundruð milljóna að gjöf frá Samherja í gegnum fyrirtæki sem hefur verið notað sem mútufélag“. Sagðist hún ítrekað hafa spurt um ástæður þess án þess að fá svör.

Dóra Björt sagði að komið hafi í ljós að Samherji standi að baki uppbyggingu í miðbænum á Selfossi, sem Eyþór hafi um árabil verið dyggur talsmaður fyrir. „Hér gæti verið komin ein ástæða þess að Samherji gaf Eyþóri Arnalds borgarfulltrúa svo drjúga gjöf sem stór hluti í Morgunblaðinu er,“ sagði hún.

Bætti hún við að ekki séu allir á því að skynsamlegt sé að afhenda hagsmunaaðilum skipulagsvaldið, hvorki á Selfossi né í Örfirisey þar sem Eyþór virðist hafa hagsmuni af uppbyggingu.

Dóra Björt Guðjónsdóttir.
Dóra Björt Guðjónsdóttir. mbl.is/Kristinn Magnússon

Samskæriskenning sem ekki stenst

Eyþór sagði Dóru Björt „dylgja algjörlega út í loftið“ og verða sjálfri sér til minnkunar. Hann sagði að „einfalt gúggl“ hefði getað sýnt henni að skipulag miðbæjar Selfoss hefði verið samþykkt í íbúakosningu fjórum árum eftir að hann hætti í borgarstjórn og að byggingarleyfin fyrir miðbæinn hafi verið gefin af vinstri-meirihlutanum. Sjálfstæðisflokkurinn hafi ekki komið þar nærri.

Hann sagði þetta samsæriskenningu sem stæðist ekki og betra væri að eyða tíma borgarfulltrúa í eitthvað annað en „þessa þráhyggju“.

Í andsvari sínu sagði Dóra Björt að Eyþór hefði komist hjá því að svara spurningu hennar um hlut hans í Morgunblaðinu og hvernig lánið sem hann fékk hafi verið afskrifað. „Ef Selfoss er ekki ástæðan væri áhugavert að vita hver ástæðan væri.“

Eyþór Arnalds í ræðustól.
Eyþór Arnalds í ræðustól. mbl.is/Árni Sæberg

„Þá bara brestur þetta ógeð á“

Vigdís sagði málið með hreinum ólíkindum. Umræða hafi verið í gangi um hagstætt húsnæði fyrir ungt fólk. „Þá bara brestur þetta ógeð á,“ sagði hún.

„Hvernig í ósköpunum eigum við 22 borgarfulltrúar að sitja undir þessum ærumeiðingum."

Hún bætti við að Dóra væri „komin með borgarstjórn þangað sem Píratar kjósa að hún sé – ofan í svaðið“ og talaði jafnframt um að sem formaður formaður mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs fari hún fram með meinsæri og hatursorðræðu.

Vigdís sagði Dóru vera með Samherja og Eyþór Arnalds á heilanum og hvatti forseta til að vísa henni úr ræðupúlti þegar slík mál koma á dagskrá „undir allt öðrum dagskrárlið“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka