„Mér er óglatt yfir þessum ummælum sem er sífellt verið að bera á borð fyrir okkur borgarfulltrúa,“ sagði Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins, á borgarstjórnarfundi fyrr í dag.
Þar var hún að bregðast við ummælum Dóru Bjartar Guðjónsdóttur, oddvita Pírata, sem sagði að Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins, „virðist hafa fengið fleiri hundruð milljóna að gjöf frá Samherja í gegnum fyrirtæki sem hefur verið notað sem mútufélag“. Sagðist hún ítrekað hafa spurt um ástæður þess án þess að fá svör.
Dóra Björt sagði að komið hafi í ljós að Samherji standi að baki uppbyggingu í miðbænum á Selfossi, sem Eyþór hafi um árabil verið dyggur talsmaður fyrir. „Hér gæti verið komin ein ástæða þess að Samherji gaf Eyþóri Arnalds borgarfulltrúa svo drjúga gjöf sem stór hluti í Morgunblaðinu er,“ sagði hún.
Bætti hún við að ekki séu allir á því að skynsamlegt sé að afhenda hagsmunaaðilum skipulagsvaldið, hvorki á Selfossi né í Örfirisey þar sem Eyþór virðist hafa hagsmuni af uppbyggingu.
Eyþór sagði Dóru Björt „dylgja algjörlega út í loftið“ og verða sjálfri sér til minnkunar. Hann sagði að „einfalt gúggl“ hefði getað sýnt henni að skipulag miðbæjar Selfoss hefði verið samþykkt í íbúakosningu fjórum árum eftir að hann hætti í borgarstjórn og að byggingarleyfin fyrir miðbæinn hafi verið gefin af vinstri-meirihlutanum. Sjálfstæðisflokkurinn hafi ekki komið þar nærri.
Hann sagði þetta samsæriskenningu sem stæðist ekki og betra væri að eyða tíma borgarfulltrúa í eitthvað annað en „þessa þráhyggju“.
Í andsvari sínu sagði Dóra Björt að Eyþór hefði komist hjá því að svara spurningu hennar um hlut hans í Morgunblaðinu og hvernig lánið sem hann fékk hafi verið afskrifað. „Ef Selfoss er ekki ástæðan væri áhugavert að vita hver ástæðan væri.“
Vigdís sagði málið með hreinum ólíkindum. Umræða hafi verið í gangi um hagstætt húsnæði fyrir ungt fólk. „Þá bara brestur þetta ógeð á,“ sagði hún.
„Hvernig í ósköpunum eigum við 22 borgarfulltrúar að sitja undir þessum ærumeiðingum."
Hún bætti við að Dóra væri „komin með borgarstjórn þangað sem Píratar kjósa að hún sé – ofan í svaðið“ og talaði jafnframt um að sem formaður formaður mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs fari hún fram með meinsæri og hatursorðræðu.
Vigdís sagði Dóru vera með Samherja og Eyþór Arnalds á heilanum og hvatti forseta til að vísa henni úr ræðupúlti þegar slík mál koma á dagskrá „undir allt öðrum dagskrárlið“.