Telur málsmeðferðartímann tengjast COVID

Egypsku börnin sem senda á úr landi að óbreyttu á …
Egypsku börnin sem senda á úr landi að óbreyttu á morgun. Ljósmynd/Sema Erla Serdar

Guðmundur Andri Thorsson, þingmaður Samfylkingarinnar, telur að COVID sé ástæða langs málsmeðferðartíma egypsku fjölskyldunnar sem fyrirhugað er að senda úr landi á morgun. Hann segir að um sé að ræða fordæmalausar aðstæður og það þurfi að taka á málinu í takt við það og hafa hagsmuni barnanna í fyrirrúmi. 

Fjölskyldan hefur verið í rúma 16 mánuði hérlendis en úrskurður um brottvísun féll eftir 15 mánuði og 11 daga. Fjölskyldan samanstendur af foreldrum og börnum þeirra fjórum en brottvísuninni verður mótmælt fyrir utan ráðherrabústaðinn í dag og mun allsherjar- og menntamálanefnd funda um málið í dag en Guðmundur Andri óskaði eftir fundinum. Hann telur að um stjórnarskrárbrot sé að ræða. 

„Mig langar að fá betri skýringar á málsmeðferðinni. Mig langar til að eiga orðastað við þá aðila sem hafa borið ábyrgð á henni eða fulltrúa þeirra stofnana, Útlendingastofnunar og dómsmálaráðuneytis. Mér fannst þetta mál gefa ástæðu til þess að ræða betur hvernig þessum málum er háttað og af hverju það eru aftur og aftur áform uppi um að senda börn úr landi sem hafa skotið rótum hér. Það hafa áður risið upp svona mótmælabylgjur gegn slíku með þeim afleiðingum að það hefur verið hætt við.“

Guðmundur Andri Thorsson, þingmaður Samfylkingarinnar óskaði eftir fundinum.
Guðmundur Andri Thorsson, þingmaður Samfylkingarinnar óskaði eftir fundinum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sjálfvirkni í afgreiðslunni

Guðmundur Andri segist ekki hafa neina trú á því að hann geti einn og sér breytt neinu í þessu einstaka máli. 

„En ég held að ef við beitum okkur öll á þeim vettvangi sem við erum hvert og eitt myndast þrýstingur sem stjórnvöld verða kannski að taka tillit til. Mér finnst vera ákveðin sjálfvirkni í þessari afgreiðslu þannig að þetta hafi kannski ekki verið hugsað nægilega vel.“

Lögmaður fjölskyldunnar sagði í bréfi sem hann sendi allsherjar stjórn­skip­un­ar- og eft­ir­lits­nefnd að fyrirhuguð brottvísun væri brot á 76. grein stjórn­ar­skrár­inn­ar þar sem kem­ur fram að börn­um skal „tryggð í lög­um sú vernd og umönn­un sem vel­ferð þeirra krefst“.

Guðmundur Andri tekur undir það. „Ég fæ ekki séð að þessi málsmeðferð sé til samræmis við 76. grein stjórnarskrárinnar.“

Hafi verið hætt við brottvísun í febrúar

Hann telur að langur málsmeðferðartími tengist COVID-19 og þeirri röskun sem hefur orðið á ferðalögum milli landa vegna hennar. 

„Mér sýnist að hér sé um að ræða COVID-mál. Að þessi óheyrilega töf sem hefur orðið á því að klára málið með þeim afleiðingum að börnin hafa skotið rótum hér sé vegna COVID. Þessi dráttur sem hefur orðið á því að vísa fólki úr landi sé vegna COVID. Það er hætt við að vísa þeim úr landi í febrúar og svo skellur COVID á og landið lokast. Þetta eru fordæmalausar aðstæður og við þurfum að taka á þessu máli eins og það er. Við höfum ekki sambærileg mál. Þegar um slíkt er að ræða látum við hagsmuni barnanna sitja í fyrrirúmi máli.“

Var þá forsvaranlegra að senda þau úr landi í febrúar? 

„Það er aldrei forsvaranlegt að vísa úr landi fjölskyldum sem hingað leita eftir skjóli en það hefði verið meira í anda laganna eins og þau eru,“ segir Guðmundur Andri. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert