Flugvél brotlenti í grennd við Selfoss

Flugvél brotlenti nálægt Sandbakka í Flóahreppi.
Flugvél brotlenti nálægt Sandbakka í Flóahreppi. Kort/Map.is

Flugvél brotlenti nálægt Sandbakka í Flóahreppi stuttu fyrir klukkan átta í gærkvöldi. Flugmaður vélarinnar er ómeiddur en flugvélin er illa farin.

Klukkan 19.51 í gærkvöldi barst stjórnstöð Landhelgisgæslunnar neyðarboð frá íslenskum flugvélaneyðarsendi. Í kjölfarið var haft samband við flugmann vélarinnar sem sagðist hafa brotlent vélinni í umferðahring við flugvöllinn við Forsæti.

Landhelgisgæslan gerði neyðarlínu og lögreglu viðvart sem tóku við málinu. Sjúkrabíll og lögregla voru send á vettvang.

Lögreglunni á Suðurlandi barst tilkynning um atvikið klukkan 19.57, en um 15-20 mínútum seinna komu neyðaraðilar á vettvang, nálægt flugvellinum við Forsæti í Villingaholtshreppi.

Málið er til rannsóknar hjá rannsóknarnefnd samgönguslysa.

Uppfært klukkan 16.00.

Ragnar Guðmundsson, stjórnandi rannsóknarinnar hjá Rannsóknarnefnd samgönguslysa segir í samtali mbl.is að flugmaðurinn hafi verið í umferðarhring við flugvöllinn við Forsæti og hafi verið að koma inn til lendingar þegar hann uppgötvaði að hefði ekki afl á hreyflinum. Hann náði ekki inn á flugvöllinn og brotlenti.

Ragnar segir að þegar fyrstu boð komu frá flugvélinni, svokölluð neyðarsending, gáfu gervihnattaupplýsingar til kynna að vélin væri í námunda við Selfoss. Við nánari rannsókn kom í ljós að það var ekki rétt. 

Þegar Ragnar mætti á vettvang í gærkvöldi hafði vélin verið fjarlægð af vettvangi, svo takmörkuð vettvangsrannsókn hafi farið af stað. Vélin hafi þó verið skoðuð og rætt var við flugmann hennar. Rannsókn málsins er nú í gangi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert