Jökullinn skilar „fljúgandi virki“

Brakið liggur eins og hráviði við jökulröndina. Hér sést ein …
Brakið liggur eins og hráviði við jökulröndina. Hér sést ein skrúfan, illa beygluð eftir hramm jökulsins. Ljósmynd/Guðmundur Gunnarsson

Brak úr bandarísku sprengjuflugvélinni sem fórst á Eyjafjallajökli í seinni heimsstyrjöldinni er smám saman að koma í ljós eftir því sem Gígjökull hopar. Jökullinn er búinn að búta flakið niður þótt einstaka hlutir úr henni séu auðþekktir og er svæðið því eins og ruslahaugur yfir að líta. Allir úr 10 manna áhöfn vélarinnar komust lífs af.

„Ég hef lengi verið í fjallgöngum og frá því ég heyrði af þessu flaki í sumar hef ég verið friðlaus. Fannst þetta heillandi saga og þegar ég sagði vinum mínum frá urðu þeir einnig friðlausir,“ segir Guðmundur Gunnarsson, fyrrverandi bæjarstjóri á Ísafirði, sem fór með félögum sínum að flakinu um helgina í tengslum við Þórsmerkurferð. Þeir skoðuðu staðinn og tóku myndir. Það var einmitt í Þórsmörk sem Guðmundur heyrði af flakinu en hann var þar að hjálpa vinum sínum sem reka ferðaþjónustufyrirtæki.

Ill vist á jöklinum

Sprengiflugvélin brotlenti á Eyjafjallajökli 16. september 1944. Hún var af gerðinni Boeing B-17, „fljúgandi virki“ eins og kallað var. Vélin var á leiðinni til Englands til að gera árásir á Þýskaland. Millilenti á Keflavíkurflugvelli til að taka eldsneyti.

Leiðindaveður var á Íslandi og áhöfnin hefur villst af leið. Hún lenti í miklu niðurstreymi og brotlenti á jöklinum. Árni Alfreðsson sagði ítarlega frá aðdraganda slyssins og hvernig áhöfnin komst til byggða í grein í Morgunblaðinu í júní 1996. Þá hafði Bandaríkjaher létt leynd af gögnum varðandi flugslysið og byggði Árni greinina á þeim.

Daði Gränz, Hrannar Ásgrímsson, Guðmundur Gunnarsson og Bergsveinn Snorrason gengu …
Daði Gränz, Hrannar Ásgrímsson, Guðmundur Gunnarsson og Bergsveinn Snorrason gengu að flugvélarflakinu um helgina.

Aðstoðarflugmaðurinn sem fylgdist með ísingu á hægri væng rak skyndilega upp vein og öskraði til flugstjórans að hann skyldi vara sig á fjöllum til hægri. Fugstjórinn snarbeygði til vinstri. Það var þó um seinan því augnabliki síðar brotlenti vélin. Lendingin var ekki mjög harkaleg því vélin lenti í snjó og rann áfram þar til hún stöðvaðist harkalega í skafli. Annar vængur vélarinnar rifnaði af og eldur kviknaði í hreyflum.

Nokkrir úr áhöfninni þeyttust út um rifur á vélinni þegar hún stöðvaðist. Einn fór alveg á kaf í snjó en félögum hans tókst að grafa hann upp. Þeir sem voru inni í vélinni komust út.

Mennirnir leituðu vars við klett í nágrenninu og áttu illa vist þar en komu sér aftur í vélina þegar eldurinn hafði slokknað. Ekki tókst að koma neyðarboðum til hersins og mennirnir vissu ekki hvar þeir voru staddir. Tveimur dögum eftir slysið ákváðu þeir að halda til byggða enda hafði einn þeirra séð ljós niðri í dalnum. Þeir komust við illan leik niður af jöklinum og hluti þeirra komst yfir Markarfljót og þegar þeir bönkuðu upp á í bænum kom í ljós að ljósin voru frá bænum Fljótsdal í Fljótshlíð. Brátt var öllum bjargað.

Nokkrir leiðangrar að flakinu

Undir lok sama mánaðar gerðu Bandaríkjamenn tvo leiðangra á jökulinn, eins og Árni lýsir í Morgunblaðsgreininni. Þá var framhluti vélarinnar alveg á kafi í snjó og rétt sást í afturhlutann. Þeir grófu sig inn í vélina og tóku með sér eitthvert lítilræði, aðallega persónulega muni áhafnarinnar. Seinni leiðangurinn komst ekki að vélinni.

Ljósmynd/Guðmundur Gunnarsson

Flugvélin hvarf í jökulinn en hann hefur verið að skila henni til baka. Árið 2001 fór Árni Alfreðsson með félögum sínum til að grafa upp hreyfil og 2004 fjarlægði Landhelgisgæslan hættulega hluti, meðal annars nokkrar vélbyssur. Ekki var talið að sprengjur væru í vélinni.

Brakið er allt í einni kássu

Guðmundi fannst aðkoman að slysstaðnum kynngimögnuð, eins og hann lýsir í færslu á Facebook. „Jökullinn var hreinlega búinn að hakka vélina í sig. Eins og mulningsvél. Þarna liggja fatalufsur, skór og fallhlífar innan um hreyfla, rafbúnað og brotajárn úr flakinu. Allt í einni kássu. Þetta var svo magnað allt saman að við ætluðum aldrei að hafa okkur niður aftur.“ Guðmundur segir við Morgunblaðið að ummerki séu eftir umgang fólks, meðal annars megi sjá sígarettustubba. Leggur hann áherslu á að fólk umgangist staðinn með virðingu og vonar að það taki ekki með sér muni úr brakinu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert