Dreifing smita veldur áhyggjum

Már Kristjánsson er yfirlæknir smitsjúkdómadeildar.
Már Kristjánsson er yfirlæknir smitsjúkdómadeildar. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Eins og stendur virðast smitin 19 sem greindust í gær ekki vera hópsýking, án þess að hægt sé að slá því föstu á þessu stigi. Einhver þeirra eru talin tengjast Háskólanum í Reykjavík. Smitin 13 sem greindust í fyrradag eru dreifð og því er ekki um hópsýkingu að ræða þar. Þetta segir Már Kristjánsson, yfirlæknir smitsjúkdómadeildar Landspítala.

„Þetta veldur áhyggjum. Þetta virðist geta bent til þess að það sé heilmikið af smiti í samfélaginu, einkum á meðal ungs fólks,“ segir Már. 

Álag á Landspítla hefur ekki aukist vegna aukins fjölda eins og er. „Ekki út af þessu í sjálfu sér. En þetta gæti leitt til þess ef það verða mjög margir alvarlega veikir þá kemur það til okkar kasta,“ segir Már. 

„Ef meðalaldurinn er lægri þá eru líkurnar á alvarlegum veikindum minni heldur en ef eldra fólk væri að greinast. Þetta segir til um það að það sé mikið um smit í samfélaginu. Það eru skilaboð til okkar allra um að við þurfum að gæta okkar mjög vel til þess að vernda hópinn sem á erfiðast með þetta, þá sem eru aldraðir og standa höllum fæti heilsufarslega.“

Ekki víst að sama þróun verði

Ekki liggur fyrir hversu margir þeirra sem greindust í gær voru í sóttkví. Már segir að smitin sem greindust í fyrradag hafi verið dreifð og því ekki hópsýking og það valdi áhyggjum. Spurður hvort um hópsýkingu sé að ræða hvað varðar smit gærdagsins segir Már: 

„Þetta lítur út fyrir að vera dreift en ég get ekki fullyrt um það á þessu stigi.“

Í upphafi fyrri bylgjunnar greindust um 14-23 smit daglega í heila viku, áður en þau skutust upp í 53 þann 17. mars. Gætum við verið að horfa á slíkan fjölda greindra smita bráðlega?

„Það er ekki óhugsandi en ég get engu spáð um það. Það er ekkert víst að þetta verði með sama hætti og þá,“ segir Már.

10 dagar síðan tilslakanir voru gerðar

Fyrir tíu dögum síðan minnkuðu nálægðartakmörk úr tveimur metrum í einn og 200 manns var leyft að koma saman. Spurður hvort mögulegt sé að tengja þær tilslakanir við aukinn fjölda nú segir Már: 

„Það er svo margt annað sem hefur gerst í samfélaginu. Skólar hafa komið saman. Við erum með nema inni á stofnunum, til dæmis á Reykjalundi og hjá Íslenskri erfðagreiningu. […] Það er mjög mikið af ungu fólki sem er að hópast saman af eðlilegum orsökum, í skóla, samkvæmislífi og eitthvað slíkt. Ég veit ekki hvort það er hægt að kenna því um að sóttvarnalæknir hafi breytt reglunum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert