Hundruð munu sæta sóttkví

Jóhann Björn Skúlason, yfirmaður smitrakningateymis alamannavarna.
Jóhann Björn Skúlason, yfirmaður smitrakningateymis alamannavarna. Ljósmynd/Lögreglan

Hundruð munu þurfa að sæta sóttkví vegna þeirra kórónuveirusmita sem upp hafa komið síðustu daga að sögn yfirmanns smitrakningateymis almannavarna. Teymið er skipað reynslumiklum hjúkrunarfræðingum og lögreglumönnum sem vel geti höndlað það álag sem nú er á teyminu, að sögn yfirmanns.

Hann segir það hjálpa við smitrakningu að fólk sé meðvitað um ferðir sínar örfáa daga aftur í tímann ef til smits kemur. Einnig sé smitrakningarappið mikilvægt.

„Við erum með nægilegan mannafla og við erum með mjög öflugan mannafla. Það eru reynslumiklir hjúkrunarfræðingar og lögreglumenn sem eru að sinna þessu núna.

Það gengur vel að vinna þau verkefni sem upp hafa komið vegna þess fjölda smita sem greinst hefur undanfarið,“ segir Jóhann Björn Skúlason, yfirmaður smitrakningateymis almannavarna í samtali við mbl.is

Nákvæm tala liggur ekki fyrir

Hann segir að ekki liggi fyrir nákvæm tala þeirra sem þurfi að sæta sóttkví vegna smita síðustu daga en að ljóst sé að þau skipti hundruðum.

„Við erum enn að vinna að rakningu og skráningu þeirra smita sem greinst hafa síðustu daga og sú vinna gengur bara vel. Þetta eru einhver hundruð, en við erum ekki með neinar nákvæmar tölur.“

Fólk verði að vera meðvitað um eigin ferðir

Jóhann segir að mikilvægt sé að fólk sé meðvitað um eigin ferðir ef það smitast. Það geri rakningu auðveldari.

„Ef til kemur að einhver er jákvæður að þá viljum við náttúrulega afla upplýsinga um hverja hann hefur hitt. Appið hjálpar fólki að vita hvar það hefur verið, en flestir eru mjög meðvitaðir um hvar þeir hafa verið og hverja þeir hafa verið að hitta.

Við fólk almennt vil ég segja að það hjálpar okkur og öllum öðrum að vera vakandi fyrir einkennum og hafa samband við heilsugæslu ef einkenna verður vart.“

Litir veirustofna ekki mikilvægir almenningi

Fram hefur komið í máli þeirra sem koma að raðgreiningu þeirra kórónuveirusmita að smitstofnar séu flokkaðir eftir litum. Jóhann Bjarni segir þetta í raun aðeins gagnast sérfræðingum og að almenningur þurfi lítið að spá í þessari litakóðun. Hann segir litakóðunina geta hjálpað til við smitrakningu.

„Íslensk erfðagreining hefur getu til þess að raðgreina veiruna og mismunandi veirustofnar hafa mismunandi raðgreiningarmynstur. Til þess að skýra það fyrir fólki sem eru ekki einhverjir sérfræðingar í þessum fræðum að þá höfum við gefið mismunandi veirustofnun svokallaða vinnuliti til aðgreiningar.“

 „Í raun og veru breytir þetta litlu fyrir almenning en þetta getur aðstoðað við smitrakningu með þeim hætti að ef tveir einstaklingar greinast með veiruna, annar kannski með „grænu“ veiruna og hinn með „bláu“ veiruna að þá er augljóst að þessi tveir aðilar hafa ekki smitast af sama einstaklingi.“

Nóg að gera

Jóhann segir að honum þyki ekki líklegt að það verði fjölgað í smitrakningateyminu að svo stöddu. Teymið anni eftirspurn.

„Við erum svona 6 til 8 manns núna að vinna að smitrakningu og við ráðum ágætlega við það. Það þarf að vera snarpari vöxtur í veirunni til þess að við förum að kalla fleira fólk inn. Það er samt alveg nóg að gera, teymið vinnur hörðum höndum að sínum verkefnum og gerir það vel.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert