Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir ætlar að leggja það til við heilbrigðisráðherra að öllum skemmtistöðum og krám á höfuðborgarsvæðinu verði lokað á morgun og að staðirnir verði lokaðir um helgina. Staðan verði svo endurmetin eftir helgi. Tillagan mun ekki ná yfir matsölustaði sem eru með vínveitingaleyfi.
Þetta kom fram í viðtali við Þórólf í kvöldfréttum Stöðvar 2 fyrr í kvöld en Þórólfur hafði á upplýsingafundi almannavarna fyrr í dag boðað staðbundnar hertar aðgerðir til að sporna við kórónuveirusmitum á vínveitingastöðum en þess að greina frá eðli eða umfangi þeirra aðgerða.
Útbreiðsla kórónuveirunnar hefur verið mikil undanfarna daga og hafa 38 ný smit greinst síðastliðna þrjá sólarhringa. Aðeins 11 þeirra voru í sóttkví. Tólf smitanna tengjast Irishman Pub í miðbæ Reykjavíkur og hafa yfirvöld beðið þá sem voru á staðnum milli klukkan 16 og 23 á föstudaginn 11. september að fara í sýnatöku.
Á morgun, föstudaginn 18. september, geta þeir sem voru á Irishman Pub á föstudaginn sl. skráð sig í sýnatöku á Heilsuveru.