Gunnar Þorgeirsson, formaður Bændasamtaka Íslands, segir að misræmi sé í tölum Evrópusambandsins um útflutning á kjöti til Íslands og innflutningstölum Hagstofu Íslands. Tölur ESB séu hærri.
Samninganefnd bænda lýsti því yfir á síðasta fundi samninganefnda bænda og ríkisins um endurskoðun rammasamnings um starfsskilyrði landbúnaðarins að ekki yrði frekar fundað fyrr en þetta misræmi hefði verið skýrt. Fjármálaráðherra hefði lofað að láta gera það.
Hann segir að skýrt sé í milliríkjasamningum hvað megi flytja til landsins á lægri tollum eða án tolla. „Hver á að fylgjast með þessum kvótum og hvað flutt er inn samkvæmt þeim? Eða mega menn flytja inn það sem þeim sýnist? Ef það er raunin þurfum við enga milliríkjasamninga,“ segir Gunnar í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.