Í gær greindist Covid-smitaður einstaklingur á Reykjalundi. Um er að ræða háskólanema sem verið hefur þar í verknámi undanfarna daga. Um 20 starfsmenn eru komnir í sóttkví og hluta af starfsemi Reykjalundar nú verið lokað tímabundið í öryggisskyni.
Ekki hefur áður verið einstaklingur með virka Covid-sýkingu inni á Reykjalundi svo vitað sé, að því er kemur fram í tilkynningu.
Um leið og grunur kom upp um mögulega sýkingu, sem og eftir að jákvætt sýni greindist, fóru í gang markvissir verkferlar um sóttvarnir og varnir gegn smitleiðum. Í samvinnu við smitrakningarteymi almannavarna, hefur verið reynt að kortleggja nákvæmlega hvaða aðila viðkomandi einstaklingur hefur umgengst á Reykjalundi síðustu daga og skilgreint hverjir gætu verið í áhættuhópi vegna þess.
Þeir skjólstæðingar sem hafa verið nálægt viðkomandi einstaklingi hafa verið látnir vita og eru þeir ýmist í sóttkví eða munu ekki koma á Reykjalund næstu daga.
„Reykjalundur harmar þau óþægindi sem þetta kann að valda skjólstæðingum í mikilvægri meðferð, sem og starfsfólki sem málinu tengist. Jafnframt ber að þakka starfsfólki Reykjalundar og öðrum sem að málinu hafa komið, fyrir snör og markviss vinnubrögð sem vonandi hafa leitt til þess að búið er að ná eins góðum tökum á ástandinu og mögulegt er,“ segir í tilkynningunni, þar sem kemur fram að starfsemi Reykjalundar verði mjög takmörkuð næstu daga.