Stærsta stökk síðan í fyrstu bylgju

19 innanlandssmit greindust í gær.
19 innanlandssmit greindust í gær. Ljósmynd/Landspítali/Þorkell

Í gær greindust 19 ný kórónuveirusmit innanlands og er það mesti fjöldi smita sem greinst hefur síðan 9. apríl þegar fyrsta bylgja kórónuveirunnar var í rénun. Þann 10. mars síðastliðinn var veiran hins vegar í stöðugum vexti hér á landi. Þann dag greindust 14 manns, 24 daginn eftir og aðeins tæpum tveimur vikum seinna greindust 106 smit innanlands sem enn er hæsti fjöldi smita sem greinst hefur á einum degi á Íslandi.

Thor Aspelund, prófessor í líftölfræði, sagði í samtali við mbl.is fyrr í dag að þróunin kæmi honum á óvart. Hann segir tölur gærdagsins ekki enn staðfestar en að þær hljóti að vera mjög nærri lagi. Upplýsingafundur almannavarna fer fram klukkan 14 í dag og verður þar eflaust rýnt betur í stöðuna sem nú er komin upp. 

Þann 9. apríl síðastliðinn greindust 27 smit innanlands og hefur fjöldinn ekki verið meiri síðan.

Sé rýnt í tölur um þróun veirunnar síðustu daga er hún nokkuð áþekk þeirri þróun sem varð í upphafi fyrstu bylgju veirunnar hér á landi í mars. „Það er eitthvað í gangi,“ segir Thor Aspelund við blaðamann mbl.is.

Síðustu viku hafa smit farið úr núll þann 10. september til 19 smita gærdagsins. Það er áþekk þróun og varð frá 8. mars þegar aðeins 5 greindust þar til þremur dögum seinna þegar 24 greindust með kórónuveirusmit. Nokkrum dögum seinna greindust svo fleiri tugir á dag marga daga í röð.

Spritt, handþvottur og eins metra reglan

Í gær minntu bæði Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir og Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra, á mikilvægi einstaklingsbundinna sóttvarna. Þá sagði Þórólfur að höfuðmáli skipti að einstaklingar sem sýni einkenni veirunnar séu ekki að fara í vinnuna og á mannamót. Það útsetji fleiri fyrir smiti og gerir smitrakningu flóknari.

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, segir að Íslendingar ættu að gera sig undirbúin undir aðra bylgju kórónuveirunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert