Flest ungmenni sem leita til Bergsins headspace nefna almenna vanlíðan, þunglyndi og eða kvíða sem meginástæðuna fyrir heimsókninni. Stúlkur eru í meirihluta og fæst ungmennanna hafa komið við sögu barnaverndar.
Fyrir tveimur árum kom saman stór hópur fólks og stofnaði samtök um stuðningssetur fyrir ungt fólk í Iðnó. Engin tilviljun réð dagsetningunni því Bergur Snær, sonur Sigurþóru Bergsdóttur, átti afmæli þann dag, 17. september. Hann hefði orðið 24 ára í dag ef hann hefði lifað en hann framdi sjálfsvíg aðeins 19 ára gamall.
Í kjölfar stofnfundarins í Iðnó var farið af stað við að undirbúa stuðningsúrræði fyrir ungt fólk sem leiddi til opnunar Bergsins headspace í lok ágúst 2019.
„Við höfum nú veitt ungu fólki ráðgjöf og stuðning í ár og erum stolt af því hvernig ungmennin sem til okkar koma hafa getað nýtt sér stuðning Bergsins headspace til að styrkjast í eigin lífi og finna sér farveg,“ segir í tilkynningu frá Berginu í tilefni af tímamótunum.
Sigurþóra og Sigrún Sigurðardóttir hafa staðið vaktina í Berginu allt frá upphafi, Sigurþóra er framkvæmdastjóri og Sigrún er í dag stjórnarformaður. Blaðamaður mbl.is hitti þær að máli í húsnæði Bergsins við Suðurgötu 10 í gær. Eðlilega hefur COVID-19 haft áhrif á starfsemi Bergsins líkt og hjá öðrum í samfélaginu og dró verulega úr aðsókninni í mars og apríl.
Aftur á móti rauk hún upp úr öllu valdi í maí enda mörg ungmenni í þörf fyrir að ræða við einhvern um líðan sína, einhvern annan en foreldri eftir að slakað var á sóttvarnareglum og þær rýmkaðar.
Öll ungmenni eru velkomin í Bergið án skilyrða en flest þeirra sem þangað leita eru á aldrinum 16-22 ára. Að sögn Sigurþóru eru lágir þröskuldar lykilatriði í að ungmennin mæti í Bergið og leiti sér aðstoðar.
„Um leið og slíkir þröskuldar eru settir, líkt og tilhneiging er til, komast þau ekki alla leið því það þarf sterk bein til að leita sér aðstoðar. Samt eru krakkarnir sem koma til okkar rosalega fær og það að þau koma í Bergið á eigin forsendum sýnir færni þeirra og getu. Við viljum einnig ná betur til þess hóps sem skilar sé ekki til okkar en þarf á aðstoð að halda, aðstoð án skilyrða. En það er ákveðinn hópur ungmenna sem ekki ræður við að leita sér aðstoðar,“ segir Sigurþóra.
Sigrún segir að fyrst eftir stofnun Bergsins hafi strákar verið í meirihluta þeirra sem komu þangað, sem var mjög jákvætt því svo virðist vera sem strákar leiti síður aðstoðar. Undanfarin misseri hefur stelpum fjölgað og alls eru stelpur 66% þeirra tæplega 200 einstaklinga sem komu í Bergið í fleiri en eitt viðtal á fyrsta starfsárinu.
Þær áttu von á því að fleiri ungmenni sem væru verulegum vanda, svo sem vegna fíknar, kæmu til þeirra en raunin varð. Í fyrstu var hugmyndin að setja á laggirnar meðferðarheimili en þess í stað þróaðist hugmyndin í Bergið headspace eins og það er rekið í dag.
„Síðan birtist þessi hópur sem hér er og við erum svo ótrúlega þakklát fyrir að hann skyldi birtast hjá okkur. Því þetta er raunverulega hópur sem við getum aðstoðað,“ segir Sigurþóra.
Sigrún bendir á tölur frá Bandaríkjunum um gríðarlega aukningu kvíða, þunglyndis, sjálfsvíga og sjálfskaða meðal ungmenna frá því samfélagsmiðlar komu til sögunnar og voru aðgengilegir í símum.
Þessir krakkar eru að takast á við svo margt, streitu og kröfur frá samfélaginu segir Sigurþóra. Þau eru ekki með alvarlega geðsjúkdóma eða eiga erindi á geðdeild eða í aðra þriðja stigs þjónustu heilbrigðiskerfisins þó svo að á einhverjum tímapunkti geti þau verið í einhvers konar hættu. Þau þurfa á einhverjum að halda sem hlustar á þau á þeirra forsendum án þess að þau séu sett í eitthvert prógramm. Að eiga virkt samtal um hlutina og líðan þeirra.
Spurð út í hvernig ungmennin fá upplýsingar um Bergið segir Sigurþóra að mörg þeirra komi í gegnum hjálparsíma Rauða krossins, 1717, sem sé mjög verðmætt en starfsfólkið þar bendir þeim á að fá ráðgjöf og aðstoð í Berginu. Þetta er mjög mikilvægt því 1717 er neyðarþjónusta sem er starfrækt allan sólarhringinn. Þannig að þar er alltaf einhver til staðar og starfsfólkið þar sinnir mjög góðri þjónustu. Eins koma margir í gegnum ábendingar frá vinum og foreldrum. Jafnframt er Bergið á samfélagsmiðlum og stefnan er að vera sýnilegri þar.
Berginu headspace er ætlað að brúa bil í þjónustu við ungmenni upp að 25 ára, þar sem of margir detta á milli kerfa. Rannsóknir sýna að þessi aldurshópur sækir sér ekki mikla hjálp fyrr en vandinn er orðinn mikill.
Kerfin geta líka verið flókin og afmörkuð við tilteknar greiningar eða vanda sem gerir það að verkum að erfitt er að fá heildstæða þjónustu. Bergið vill ná til ungmenna fljótt og vel, helst áður en vandinn er orðinn mikill eða flókinn.
Við erum í samstarfi við slíka þjónustu erlendis við mótun starfs Bergsins segir í tilkynningu frá Berginu. Nefna má að í aðgerðaráætlun til að fækka sjálfsvígum á Íslandi var eitt undirmarkmið gæðaþjónustu á sviði geðheilbrigðis að sett verði á stofn lágþröskuldaþjónusta í anda Headspace í Ástralíu.
Bergið headspace er opið alla virka daga klukkan 09-17. Þjónusta okkar er þannig uppbyggð að ungmenni, upp að 25 ára, geta komið, hringt, haft samband í vefspjalli eða óskað rafrænt eftir þjónustu. Þau fá viðtal við ráðgjafa sem að hlustar, metur vandann, aðstoðar ungmennið við að átta sig á því hver vandinn er og hjálpa ungmennum við að fá meðferð eða aðstoð annars staðar í kerfunum ef þörf er á. Miðað er við að ungmenni geti fengið tíma sem allra fyrst, eftir því sem hentar ungmenninu. Ráðgjöf getur verið bæði í Berginu eða með fjarráðgjöf í gegnum Kara connect segir í tilkynningu.
Eitt af því sem vekur athygli er að aðeins 15% þeirra sem sækir Bergið headspace hafa komið við sögu hjá barnavernd og flest eru mjög virk, þau eru flest í skóla, vinnu eða hvoru tveggja, þeim gengur ágætlega út á við og hringja ekki bjöllum í kerfum í kringum sig. Hins vegar líður þeim flestum mjög illa, þau eru að takast á við erfiðar aðstæður heima við, fá lítinn stuðning og er það mat starfsmanna Bergsins að mörg eru á mörkum þess að brenna út, eða lenda í meiri veikindum.
Meðalskor ungmenna sem leita til Bergins á ACE-kvarðanum er 4 stig sem er umtalsvert hærra en gengur og gerist í þýði miðað við rannsóknir. 48% ungmenna sem koma í Bergið eru með 4 stig á ACE eða fleiri miðað við 15% í bandarískum rannsóknum á almennu þýði.
Vincent Felitti og rannsóknarhópur hans í Bandaríkjunum standa að baki þekktustu rannsókninni á áföllum í æsku og áhrifa þeirra á líf fólks. Hún gengur undir heitinu Adverse Childhood Experiences (ACE), eða Dulin áhrif áfalla í bernsku á heilsufar á fullorðinsárum, og náði til 17.000 manna úrtaks á síðasta áratug 20. aldarinnar.
Niðurstöður rannsóknarinnar gefa til kynna að erfiðar uppeldisaðstæður og áföll í æsku auki til muna líkurnar á því að fólk veikist bæði andlega og líkamlega eða eigi við félagslegan vanda að stríða á fullorðinsárum. ACE-mælikvarðinn gengur út að leggja fyrir fólk 10 spurningar um líkamlegt ofbeldi, andlegt ofbeldi, kynferðislegt ofbeldi, líkamlega vanrækslu og fleira í æsku. Svarandinn fær eitt stig við hvert jákvætt svar. Eftir því sem stigin eru fleiri er talið líklegra að viðkomandi eigi eftir að stríða við andlegan eða líkamlegan heilsubrest og félagsleg vandamál og/eða deyja ótímabærum dauðdaga.
Sem dæmi um afleiðingar þess að hafa orðið fyrir fjórum eða fleiri slíkum áföllum í bernsku aukast líkur á hjarta- og æðasjúkdómum, krabbameini, langvinnum lungnasjúkdómum, áhættuhegðun, geðröskunum og ótímabærum dauða. Ef áföllin eru sex eða fleiri styttist ævin að meðaltali um 20 ár, að því er fram kemur í rannsókn Felettis.
Tæplega 40% þeirra ungmenna sem hafa komið í viðtöl í Berginu eiga foreldra, systkini eða hvort tveggja sem eiga í andlegum veikindum eða fíkn.
Sigrún segir að mjög lítið sé rætt um álagið sem því fylgir fyrir börn og ungmenni að eiga veikt foreldri eða foreldri í vanda. Að eiga foreldri í neyslu skilar einu stigi á ACE og hið sama á við að eiga foreldri sem á við geðræn vandamál að stríða. Ekki er almennt skimað fyrir ACE í heilbrigðiskerfinu eða öðrum kerfum hér á landi svo vitað sé, þannig að áfallamiðuð þjónusta hefur ekki verið innleidd að neinu marki á Íslandi, nema þá helst hér í Berginu.
Sigrún segir mjög mikilvægt að ungt fólki leiti sér aðstoðar við vanlíðan áður en það hyggur á barneignir til dæmis, til að rjúfa þá keðju sem getur átt sér stað á yfirfærslu vandamála og veikinda frá foreldri til barna.
Reiknað hefur verið út að samfélagið getur sparað sér sjö milljarða árlega með því að halda vel utan um mæður á meðgöngu og börn þeirra fyrstu tvö árin. Með því að halda vel utan um mæður á meðgöngu og veita þeim sem þess þurfa aukna þjónustu í barneignarferli má spara samfélaginu umtalsverða fjármuni til lengri tíma. Sífellt eru að koma fram niðurstöður rannsókna sem sýna hve mikilvægur þessi tími er í þroska og þróun fósturs í móðurkviði og barnsins fyrstu tvö árin, að því er fram kemur á vef Geðverndarfélagsins en í grein sem Sæunn Kjartansdóttir, hjúkrunarfræðingur og sálgreinir, ritaði fyrir nokkrum árum segir:
„Af þessari upphæð eru 72% kostnaðarins vegna barnsins og fellur hann til í heilbrigðis-, félags- og menntakerfinu. Sem dæmi má nefna hegðunarvanda barna og unglinga, kvíða og átraskanir, námserfiðleika, áfengis- og vímuefnanotkun, geðraskanir, líkamlega sjúkdóma og afbrot,“ segir í grein Sæunnar.
Rannsóknir sýna að snemmtækur stuðningur og sálfélagsleg inngrip við fjölskyldur ungbarna kosta lítið miðað við samfélagslegan kostnað ef ekkert er að gert — niðurstaðan er sparnaður fyrir samfélagið.
London School of Economics (LSE) gaf út skýrslu árið 2014 sem sýndi að fyrir hverja krónu sem eytt er í þennan málaflokk mætti spara 30. Miðað við íslenskan raunveruleika og árlega fæðingartíðni mætti spara 7 milljarða íslenskra króna fyrir hvern árgang með því að sinna foreldrum á meðgöngu og börnum þeirra fyrstu tvö árin á fullnægjandi hátt. Það, hvernig við önnumst börn frá fæðingu til tveggja ára aldurs, ræður framtíð þeirra sem hefur í kjölfarið áhrif á framtíð samfélags okkar.
„Þetta er eitthvað sem þarf að draga upp á yfirborðið og bregðast við,“ segir Sigrún. Hún segir að það sé svo mikilvægt að fólk leiti sér hjálpar strax á meðgöngu til þess að stöðva áfallasögu sem getur gengið kynslóða á milli. Að rjúfa keðjuna og fara heill inn í fæðinguna.
Sigurþóra segir að eitt af því sem nefnt er verndandi þáttur í þessu samhengi sé að eiga traustan trúnaðarvin. Að eiga einhvern að sem hægt er að ræða við og treysta fyrir vandamálum.
„Við hjá Berginu erum heilt samfélag – erum sá aðili sem hægt er að treysta fyrir hlutunum og fá hjálp. Það er líka hluti af þessum aldri að slíta sig frá foreldrunum og skiptir þar engu hversu skilningsríkir foreldrarnir eru og veita mikinn stuðning.
Þú getur lent í alls konar áföllum, einelti, ofbeldi og öðru slíku þrátt fyrir að koma frá góðum heimilum. Þú getur upplifað þig út undan, til dæmis í skóla, þrátt fyrir að foreldrar vilji gera allt sem í þeirra valdi til að láta þér líða betur en ert á því þroskaskeiði að vilja leita eftir stuðningi annars staðar en hjá foreldrum. Stundum er betra að ræða við aðra en foreldrana,“ segir Sigurþóra.
Sigurþóra segir að foreldrar séu alltaf hluti af lausninni og það hafi alveg komið upp tilvik þar sem starfsmenn Bergsins hafa veitt stuðning við að bæta samskipti ungmenna og foreldra. Þetta eru mest 16-22 ára ungmenni sem koma hingað segir hún.
„Við styðjum þau til þess að fara sína leið. Það er eitthvað sem ég upplifði þegar Bergur Snær dó. Að fara yfir þá erfiðleika sem hann tókst á við. Það var svo oft þannig að við vorum að toga hann eitthvað. Ekki bara við fjölskyldan heldur einnig fagfólk. Það var alltaf verið að láta hann gera eitthvað í stað þess að setjast niður og segja: hvernig vilt þú gera þetta?“ segir Sigurþóra. Að aðstoða börn og ungmenni við að gera hlutina á sínum forsendum í stað þess að stjórna þeirra leið.
Sigurþóra og Sigrún leggja áherslu á að ungmennin séu alltaf með í ráðum og einnig foreldrar. Til að mynda ef eitthvað kemur fram í viðtölum sem vekur áhyggjur hjá ráðgjöfum Bergsins þá er alltaf talað um það við viðkomandi að mikilvægt sé að foreldrar séu upplýstir um stöðuna. „Við gerum ekkert án þess að segja þeim frá því fyrir fram og þau samþykkja alltaf að samband sé haft við foreldra ef það er eitthvað sem vekur ugg hjá okkur. Sama á við ef tilkynnt er til barnaverndar. Við erum alltaf með þetta hreinskipta samtal við ungmennin áður en nokkuð er gert,“ segir Sigurþóra.
Ummæli ungmenna sem hafa leitað til Bergsins segja sína sögu: „Fékk tíma til að segja mína sögu,“ „Það er hlustað á mig. Og það af alvöru. Það er hlustað á mig og tekið til greina hvað ég hef að segja.“ „Ég get talað um það sem heltekur hjartað mitt við einhvern sem hlustar og getur hjálpað mér að halda áfram.“
„Það er ekki í boði lengur að ræða ekki hlutina því stundum segir fólk að það spyrji ekki þar sem það óttast svarið og veit ekki hvað það á að gera við svarið. Þetta var kannski raunin fyrir 20 árum síðan en ekki lengur. Það er til fullt af úrræðum sem eru í boði fyrir þá sem þurfa aðstoð,“ segir Sigrún.
Áhersla er lögð á það hjá Berginu að vera í góðu samstarfi við aðra, svo sem félagsþjónustur sveitarfélaga, barnavernd, heilsugæslu, Landspítalann, framhaldsskóla, lögreglu og starfsendurhæfingar. Eins við önnur sérstök úrræði svo sem SÁÁ, Píeta og fleiri.
Í nýrri heimildarmynd sem verður frumsýnd síðar í mánuðinum, Þriðji póllinn, er fjallað um geðhvörf. Þar minnir Högni Egilsson tónlistarmaður áhorfendur á þá staðreynd að geðhvörf er alvarlegur sjúkdómur sem getur oft verið bannvænn. Geðsjúkdómar eru ekki léttvæg veikindi og það er mikilvægt að leita sér aðstoðar. Eða eins og Högni segir í myndinni – ef hann hefði ekki leitað sér aðstoðar þá hefði hann sennilega framið sjálfsvíg.
Enginn vandi er of stór eða of lítill, ef ungmenni telja sig hafa eitthvað um að tala þá eru þau velkomin í Bergið án skilyrða, segja þær stöllur Sigurþóra og Sigrún sem stóðu að stofnun Bergsins á sínum tíma.