Yfirlýsingin tengist ekki endilega hlutafjárútboði

Valmundur Valmundsson, formaður Sjómannasambands Íslands.
Valmundur Valmundsson, formaður Sjómannasambands Íslands. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Formaður Sjómannasambands Íslands segir að tillaga um sameiginlega yfirlýsingu ASÍ og Icelandair um sátt í deilu aðilanna, sé ekkert endilega til komin vegna hlutfjárútboðs Icelandair. Hann segir yfirlýsinguna viðurkenningu á því að Icelandair hafi brotið lög og reglur og að jákvætt sé að sátt hafi náðst í málinu.

Valmundur Valmundsson, formaður Sjómannasambands Íslands og stjórnarmaður í miðstjórn ASÍ, segir í samtali við mbl.is að atkvæðagreiðsla um sameiginlega yfirlýsingu sambandsins og Icelandair hafi farið fram á miðstjórnarfundi í gærmorgun.

„Ég veit ekki hvort Icelandair hafi komið með þessa tillögu sjálft inn á borð miðstjórnar en ég veit til þess að í fyrradag átti sér samtal milli forsvarsmanna félagsins og forystufólks innan ASÍ,“ segir Valmundur við mbl.is.

„Ég tel að það sé jákvætt að sátt hafi náðst í þessri deilu en ég held að þetta hafi ekkert endilega neitt með hlutafjárútboð Icelandair að gera. Þetta er í raun bara viðurkenning á því að Icelandair hafi brotið lög og reglur með ákvörðun sinni um að segja upp öllum flugfreyjum félagsins í júlí.“

Yfirlýsingin ekki enn undirrituð

Líkt og fram hefur komið í fréttum mbl.is var lögð fram tillaga að viljayfirlýsingu ASÍ og Icelandair á fundi miðstjórnar ASÍ í gær. Drífa Snædal, forsti ASÍ sagði í samtali við mbl.is að ekki væri búið að skrifa undir neina viljayfirlýsingu.

„Það hefur ekki verið skrifað undir neina yfirlýsingu en það var kosið um þetta í gær á fundi miðstjórnar í gær. Til þess að skrifað sé undir svona yfirlýsingu þarf eðlilega samkomulag milli allra aðila um orðalag hennar,“ segir Valmundur. Sú vinna muni líklega fara fram á næstu fundum.

„Það voru eðlilega skiptar skoðanir um þetta og það kaus einn stjórnarmaður á móti þessu eins og fram hefur komið.“ Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar og stjórnarmaður í miðstjórn ASÍ, greindi frá því á facebooksíðu sinni í gær að hún hafi greitt atkvæði gegn tillögunni um viljayfirlýsingu. Aðspurður segir Valmundur hafa kosið með tillögunni.

Hér fyrir neðan er texti að ályktun sem ég ætlaði mér að leggja fram á miðstjórnarfundinum í dag. Ég sendi hann á félaga...

Posted by Sólveig Anna Jónsdóttir on Miðvikudagur, 16. september 2020
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert