Formaður Sjómannasambands Íslands segir að tillaga um sameiginlega yfirlýsingu ASÍ og Icelandair um sátt í deilu aðilanna, sé ekkert endilega til komin vegna hlutfjárútboðs Icelandair. Hann segir yfirlýsinguna viðurkenningu á því að Icelandair hafi brotið lög og reglur og að jákvætt sé að sátt hafi náðst í málinu.
Valmundur Valmundsson, formaður Sjómannasambands Íslands og stjórnarmaður í miðstjórn ASÍ, segir í samtali við mbl.is að atkvæðagreiðsla um sameiginlega yfirlýsingu sambandsins og Icelandair hafi farið fram á miðstjórnarfundi í gærmorgun.
„Ég veit ekki hvort Icelandair hafi komið með þessa tillögu sjálft inn á borð miðstjórnar en ég veit til þess að í fyrradag átti sér samtal milli forsvarsmanna félagsins og forystufólks innan ASÍ,“ segir Valmundur við mbl.is.
„Ég tel að það sé jákvætt að sátt hafi náðst í þessri deilu en ég held að þetta hafi ekkert endilega neitt með hlutafjárútboð Icelandair að gera. Þetta er í raun bara viðurkenning á því að Icelandair hafi brotið lög og reglur með ákvörðun sinni um að segja upp öllum flugfreyjum félagsins í júlí.“
Líkt og fram hefur komið í fréttum mbl.is var lögð fram tillaga að viljayfirlýsingu ASÍ og Icelandair á fundi miðstjórnar ASÍ í gær. Drífa Snædal, forsti ASÍ sagði í samtali við mbl.is að ekki væri búið að skrifa undir neina viljayfirlýsingu.
„Það hefur ekki verið skrifað undir neina yfirlýsingu en það var kosið um þetta í gær á fundi miðstjórnar í gær. Til þess að skrifað sé undir svona yfirlýsingu þarf eðlilega samkomulag milli allra aðila um orðalag hennar,“ segir Valmundur. Sú vinna muni líklega fara fram á næstu fundum.
„Það voru eðlilega skiptar skoðanir um þetta og það kaus einn stjórnarmaður á móti þessu eins og fram hefur komið.“ Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar og stjórnarmaður í miðstjórn ASÍ, greindi frá því á facebooksíðu sinni í gær að hún hafi greitt atkvæði gegn tillögunni um viljayfirlýsingu. Aðspurður segir Valmundur hafa kosið með tillögunni.