Gert er ráð fyrir 6,5 milljörðum króna í framkvæmdir við nýbyggingu fyrir nýja legudeild við Sjúkrahúsið á Akureyri í fjármálaáætlun áranna 2021-2025. Frá þessu greindi Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra er hún ávarpaði ársfund Sjúkrahússins á Akureyri í gær.
„Hjá mér hefur það verið sérstakt áhugamál og ég lagt á það áherslu í embætti að tryggja þessa framkvæmd í fjármálaáætlun“ sagði Svandís Svavarsdóttir í ávarpi sínu og jafnframt að þetta væri eitt þeirra mála sem hún væri hvað stoltust af á sinni tíð sem heilbrigðisráðherra.
Í tilkynningu frá heilbrigðisráðuneytinu segir að vinnuhópar á vegum Sjúkrahússins á Akureyri hafi undanfarin ári fjallað um framtíðaruppbyggingu og nýtingu húsnæðis við sjúkrahúsið. Niðurstaða þeirrar vinnu hafi verið sú að ný legudeildarbygging sé eini raunhæfi kosturinn til að leysa húsnæðisvanda sjúkrahússins.
Í fjáraukalögum þessa árs var 80 milljónum króna úthlutað til að hefja frumathugun og gerð útboðsgagna fyir nýju byggingu nýju legudeildarinnar. Verkefnið er nú til umfjöllunar hjá Framkvæmdasýslu ríkisins.