Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra hefur staðfest tillögur valnefndar um verkefnastyrki sem veittir eru á grundvelli stefnumótandi byggðaáætlunar fyrir árin 2018-2024.
32,5 milljónum króna verður úthlutað til ellefu verkefna á sviði almenningssamgangna um land allt fyrir árin 2020 og 2021 en fyrirheit hafa verið gefin um styrki að heildarupphæð 47,3 milljónum króna á árunum 2020-2023.
Markmið með framlögunum er að styðja við áframhaldandi þróun almenningssamgangna um land allt, að því er segir í tilkynningu.
Alls bárust 22 umsóknir og samtals var sótt um tæplega 125 milljónir króna fyrir árin 2020-2021. Þriggja manna valnefnd fór yfir umsóknirnar og gerði tillögur til ráðherra.
Verkefnin sem hljóta styrk eru:
- Samþætting skóla- og tómstundaaksturs og almenningssamgangna. Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi hljóta styrk til að kortleggja möguleikana á því að tengja saman skólaakstur í grunn- og framhaldsskóla á Vesturlandi sem og tómstundaakstur þar sem hann er við almenningssamgöngur í landshlutanum, sem og að vinna tillögu að leiðakerfi. Verkefnið er styrkt um kr. 2.000.000.
- Efling þjónustu og atvinnusóknar á norðanverðum Vestfjörðum. Vestfjarðastofa ses. hlýtur styrk til að efla almenningssamgöngur til og frá Flateyri með það að markmiði að bæta þjónustu við íbúa á Flateyri, en horfa jafnframt til samlegðaráhrifa fyrir nágrannabyggðarlögin Suðureyri, Flateyri og Þingeyri. Verkefnið er styrkt um kr. 1.000.000 árið 2020 og kr. 3.200.000 á ári 2021-2023. Samtals kr. 10.600.000.
- Sambíllinn. Vestfjarðastofa ses. hlýtur styrk til að greina möguleika þess að efla almenningssamgangnaakstur með því að nýta þjónustu sem þegar er í boði, s.s. skólaakstur og þjónustuakstur. Verkefnið er styrkt um kr. 3.000.000.
- Pöntunarakstur. Vestfjarðastofa ses. hlýtur styrk til að koma upp akstri til og frá Reykhólahreppi og Drangsnesi og tengja samgönguneti almenningssamgangna. Verkefnið er styrkt um kr. 1.000.000 árið 2020 og kr. 2.700.000 á ári 2021-2023. Samtals kr. 9.100.000.
- Pöntunarakstur. Vesturbyggð og Tálknafjarðarhreppur hafa í samstarfi við fyrirtæki í sveitarfélögunum byggt upp almenningssamgöngur á milli byggðarlaga og vilja auka sveigjanleika kerfisins. Vestfjarðarstofa ses. hlýtur styrk til að koma á pöntunarþjónustu með aðilum sem hafa til þess bær leyfi. Verkefnið er styrkt um kr. 200.000 árið 2020 og kr. 1.500.000 á ári, árin 2021-2023. Samtals kr. 4.700.000.
- Fýsileikakönnun almenningssamgangna á Norðurlandi vestra. Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra fær styrk til að kanna þróun almenningssamgangna innan og/eða milli vinnusóknarsvæða á Norðurlandi vestra. Verkefnið er styrkt um kr. 2.900.000.
- Samlegð farþega og póstflutninga á Norðausturlandi. Samtök sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra hljóta styrk til að samnýta póst- og farþegaflutninga frá Húsavík til Þórshafnar. Verkefnið er styrkt um kr. 2.800.000.
- Fólk og farmur á Austurlandi. SvAust hlýtur styrk til að kortleggja þá aðila á Austurlandi sem sinna fólks- og/eða farmflutningum og kanna möguleika á að tengja gildandi leiðarkerfi SvAust við aðrar stofnleiðir á hringveginum. Verkefnið er styrkt um kr. 3.000.000.
- Farveita. SvAust hlýtur styrk til að skilgreina þjónustuþörf á Austurlandi og þróa smáforrit sem gerir farþegum kleift að tengjast inn á áætlunarkerfi SvAust með pöntunarþjónustur. Verkefnið er styrkt um kr. 3.000.000.
- Frístundaakstur og almenningssamgöngur. Sveitarfélagið Hornafjörður hlýtur styrk til áframhaldandi þróunar á frístunda- og tómstundaakstri milli Hafnar og Suðursveitar annars vegar og Hafnar og Lóns hins vegar. Verkefnið er styrkt um kr. 3.200.000.
- Rannsóknar- og þróunarverkefni á sviði almenningssamgangna á Suðurlandi. Samtök sunnlenskra sveitarfélaga hljóta styrk til að greina þjónustu almenningssamgangna á landsbyggðinni sem unnt verður að nýta í öðrum landshlutum. Könnun á meðal íbúa og gesta á Suðurlandi um ferðahegðun. Verkefnið er styrkt um kr. 3.000.000.