Aðalfundur Sameykis samþykkti á aðalfundi sínum í gær ályktun þar sem uppsagnir á Landspítalanum eru fordæmdar. Stjórnendateymi í eldhúsi og uppvaski var sagt upp föstudaginn sl., 11. september, alls átta manns.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Sameyki stéttarfélagi í almannaþjónustu.
„Í þessum faraldri hafa starfsmenn heilbrigðisþjónustunnar staðið í framlínunni þar sem mestur þunginn hefur verið. Landspítalinn hefur staðið í brjóstvörn aðgerða og allir starfsmenn og starfseiningar sýnt ótrúlega fórnfýsi og fagmennsku.
Undir þessu kringumstæðum sér Landspítalinn sóma sinn í því að sækja að stjórnendateymi sínu í eldhúsi spítalans, í matargerð og í uppþvotti, þeim tveimur starfseiningum sem sjá um að framleiða heilbrigt og næringarríkt fæði, og sóttvörn mataráhalda allra þeirra þúsunda sem njóta þjónustu eldhússins,“ segir meðal annars í ályktuninni.
Þar segir einnig að aðalfundur Sameykis stéttarfélags fordæmi þessa aðför að því fólki sem haldið hefur heilbrigðiskerfinu gangandi, á tímum þar sem nauðsyn þess að byggja á fagmennsku hefur aldrei verið meiri. Íslensk stjórnvöld hafi þá siðferðilegu skyldu að sýna gott fordæmi og standa í vegi fyrir vanhugsuðum og óásættanlegum brottrekstri trúfastra starfsmanna.