Gagnrýnir kirkjuna fyrir „öfgar fram og til baka“

Þorbjörg Þorvaldsdóttir (t.v.) er formaður Samtakanna '78. Til hægri má …
Þorbjörg Þorvaldsdóttir (t.v.) er formaður Samtakanna '78. Til hægri má svo sjá hina umdeildu birtingarmynd krists. Samsett mynd

„Ég viðurkenni að ég var efins um kynningarefni Sunnudagaskólans – kristur með brjóst – þegar ég sá það fyrst. Mér fannst augljóst að það myndi stuða marga, bæði innan og utan kirkjunnar“, skrifar Þorbjörg Þorvaldsdóttir, formaður Samtakanna '78, í færslu á Facebook um umdeilt kynningarefni þjóðkirkjunnar þar sem kristgervingur kemur fram með brjóst og andlitsfarða. 

Síðar fannst henni efnið hressandi og er hún ósátt með að þjóðkirkjan hafi tekið ákvörðun um að fjarlægja kynningarefnið af miðlum sínum. Með því hafi þjóðkirkjan ekki staðið í lappirnar. 

Kirkjan nýbúin að biðjast afsökunar

Þorbjörg segir að henni hafi í fyrstu ekki þótt tímabært að kirkjan kæmi fram með svo afgerandi hætti þar sem rétt rúmur mánuður væri síðan biskup Íslands bað hinsegin fólk afsökunar fyrir hönd Þjóðkirkjunnar.

„Við sama tækifæri var sett af stað uppgjörsverkefnið ‘Ein saga – eitt skref’ sem kirkjan ætlar að vinna að í samstarfi við okkur í Samtökunum ‘78.“

Þorbjörg segir að með því verkefni komi þjóðkirkjan fram af auðmýkt og geri upp og horfist í augu við erfiða sögu misréttis gagnvart hinsegin fólki. Það verkefni er í raun nýhafið. 

„En jæja, ég ræð víst ekki öllu og þegar á leið fannst mér þetta bara hressandi allt saman. Það er líka fátt frábærara en kynusli, sérstaklega þegar hann stuðar fólk sem glímir við fordóma,“ skrifar Þorbjörg.

„En hér er lykilatriðið og ástæða þess að ég skrifa þetta: Þegar ákveðið hefur verið að koma með jafn mikið ‘statement’ og Jesúmyndin umrædda er, þá er lágmarkskrafa að þjóðkirkjan standi í lappirnar og sýni að hún sé alvörusamherji hinsegin fólks, líka þegar á móti blæs. Í staðinn hefur kirkjuþing nú ályktað og beðið fólk afsökunar á myndinni og er það, að mér skilst, í fyrsta sinn sem það biður nokkurn afsökunar með formlegum hætti. Biskup Íslands bakkaði síðan mjög harkalega í viðtali við Kastljós í gærkvöldi, þar sem hún sagði hreinlega að myndin hafi ekki átt að vera af Jesú og að hún hefði aldrei leyft slíka ‘afskræmingu’. Þar staðfesti hún einnig að myndin hefði verið tekin niður af síðu kirkjunnar vegna þess að hún særði svo marga.“

Vill að stuðningurinn sé sannur

Eftir þennan „hringlandahátt“ og „öfgar fram og til baka“ spyr Þorbjörg: „Ætlar þjóðkirkjan að vera alvörusamherji okkar eða ekki? Er nóg að fólk hneykslist og hringi á Biskupsstofu til þess að hún snúi við okkur baki? Af atburðarás síðustu daga er erfitt að ráða mikla staðfestu eða einlægni í stuðningi kirkjunnar við hinsegin fólk.“

Þorbjörg ítrekar þó mikilvægi þess að stærsta trúfélag landsins standi með hinsegin fólki og vill hún gjarnan að sá stuðningur sé sannur.

„Það er ekki síst mikilvægt fyrir trúað fólk innan hinsegin samfélagsins. Ég á þess vegna fund með biskupi á þriðjudaginn og ætlast til þess að ég fái þar betri skýringar á málunum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka