Drífa Snædal, forseti Alþýðusambandsins, segir að yfirlýsing sem Alþýðusambandið, Icelandair og Samtök atvinnulífsins undirrituðu í gær sé mikilvæg viðurkenning fyrir flugfreyjur og allt launafólk í landinu til framtíðar. Þetta kemur fram í tilkynningu frá ASÍ.
Með yfirlýsingunni gengust Icelandair og Samtök atvinnulífsins við því að framganga þeirra hafi brotið í bága við samskiptareglur á vinnumarkaði, þegar tekin var ákvörðun um að segja öllum flugfreyjum félagsins upp og ganga til samninga við annað stéttarfélag en Flugfreyjufélag Íslands, aðildarfélag ASÍ. Svo fór að lokum að samningar náðust milli Icelandair og Flugfreyjufélagsins.
Í yfirlýsingunni kom jafnframt fram að ASÍ myndi ekki fara með málið fyrir Félagsdóm líkt og áður hafði verið boðað, en framámenn í verkalýðshreyfingunni höfðu sagt að framganga Icelandair bryti gegn lögum um stéttarfélög og vinnudeilur frá 1938. Þess ber þó að geta að í yfirlýsingunni er ekki viðurkennt að Icelandair hafi brotið gegn þeim lögum.
Stjórn stéttarfélagsins Eflingar, næstfjölmennasta aðildarfélags ASÍ, hefur gagnrýnt þátttöku ASÍ í yfirlýsingunni. Með yfirlýsingunni hafi ASÍ tekið þátt í„ hvítþvotti“ brota Icelandair og Samtaka atvinnulífsins á vinnumarkaðslöggjöf með því að kalla þau „brot á samskiptareglum“. Benti Efling á að umrædd yfirlýsing veiti enga lagalega vernd eða tryggingu gegn því að önnur fyrirtæki muni síðar beita sömu aðförum.
Í tilkynningu segir að mikill meirihluti hafi verið innan miðstjórnar sambandsins fyrir því að skrifa undir yfilýsinguna og fá þar með fram viðurkenningu frá Icelandair í gegnum samkomulag fremur en að láta reyna á málið fyrir dómstólum. ASÍ stýri enda atburðarás í samningum frekar en fyrir dómi.