Unnið er að uppsetningu kantljósa í Hvalfjarðargöngum og er unnið við verkið frá klukkan 22 á kvöldin til 6.30 á morgnana.
Vegfarendur eru beðnir að sýna tillitssemi meðan á verkinu stendur, en verklok eru áætluð 15. október. Fram kemur á heimasíðu Vegagerðarinnar að of oft sýni ökumenn ekki nægilega tillitssemi í kringum vinnusvæðið, sem geti skapað hættu fyrir starfsmenn.
Uppsetning kantljósanna var boðin út í vor og bauð Orkuvirki lægst og vinnur verkið. Sett verða upp LED-ljós með 25 metra millibili og koma þau í stað vegstika í göngunum. Fram kemur á heimasíðu Vegagerðarinnar að slík ljós spari bæði tíma og fyrirhöfn því þrífa þurfti vegstikur mánaðarlega með sérstökum vélum í göngunum. Ljósin auki einnig öryggi og gagnist sem rýmingarlýsing ef reykur kemur í göngin.