Heilbrigðisráðherra hefur fallist á tillögu sóttvarnalæknis um að loka skemmtistöðum og krám á höfuðborgarsvæðinu, tímabundið í fjóra daga frá 18. – 21. september. Þetta er gert til að sporna við útbreiðslu COVID-19. Reglugerð heilbrigðisráðherra þessa efnis hefur þegar tekið gildi.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Stjórnarráði Íslands.
„Í minnisblaði sóttvarnalæknis segir að á þremur sólarhringum þar sem greindust alls 38 smit hafi a.m.k. fjórðungur þeirra tengst heimsókn á ákveðnar krár og skemmtistaði í Reykjavík fyrir rúmri viku. Bregðast þurfi við sem fyrst með markvissum aðgerðum til að koma í veg fyrir útbreiddan faraldur með tilheyrandi afleiðingum segir í minnisblaðinu.“
Umrædd lokun tekur til kráa og skemmtistaða í Reykjavík, Mosfellsbæ, Hafnarfirði, Garðabæ, Kópavogi, Kjósarhreppi og á Seltjarnarnesi.
„Í tilvikum þar sem staðir eru með rekstrarleyfi fyrir fleiri tegundum veitingastaða en krám og skemmtistöðum er áframhaldandi starfsemi heimil hvað þær tegundir varðar. Þannig geta veitingastaðir sem í rekstrarleyfi eru skráðir sem veitingahús eða kaffihús, haldið áfram starfsemi á þeim grundvelli, en kráar- og skemmtistaðastarfsemi er óheimil.“
Hér má finna reglugerðina.
Fréttin hefur verið uppfærð