Innanlandsflug Icelandair gekk ágætlega í sumar, þrátt fyrir erfiðar ytri aðstæður. Seglin voru rifuð í takt við breytta eftirspurn þannig að þessi þáttur starfseminnar var rekinn á um það bil hálfum afköstum.
„Við fengum skellinn í apríl, vorum með sáralítinn rekstur fyrsta mánuðinn eftir að kórónuveirufaraldurinn skall á. Við vorum þó fljót að ná okkur upp í 50% rekstur og vorum í því horfi í júní og júlí. Bakslag kom í kjölfar annarrar bylgju faraldursins í ágúst en við höfum verið að vinna okkur til baka,“ segir Þóra Eggertsdóttir, forstöðumaður innanlandsflugs Icelandair Group.
Hún segir að í ástandi sem þessu sé framboð stillt af miðað við eftirspurn. Það geri það að verkum að sætanýting sé svipuð og áður, en vitaskuld hafi ferðunum fækkað mikið. Aðeins er eitt flug á viku til Grænlands á vegum félagsins og hefur verið þannig frá því í vor.
Í Morgunblaðinu í dag segir Þóra að unnið hafi verið að hagræðingu í innanlandsfluginu undanfarin ár og hafi starfsemin verið komin á góðan stað þegar kórónuveirufaraldurinn skall á.