Sækja ekki allsherjarþing SÞ í ár

Guðlaugur Þór Þórðarson flytur ávarp haustið 2019.
Guðlaugur Þór Þórðarson flytur ávarp haustið 2019. Ljósmynd/UNTV

Það stefnir í að ekki verði af þátttöku alþingismanna í allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna að þessu sinni vegna heimsfaraldurs kórónuveiru. Þetta staðfestir Ragna Árnadóttir, skrifstofustjóri Alþingis, í Morgunblaðinu í dag.

Þingmenn hafa sótt allsherjarþing SÞ um áratuga skeið sem hluti af sendinefnd Íslands. Það hefur komið fyrir í gegnum árin að einstaka þingmaður hefur forfallast vegna ófyrirséðra kringumstæðna en aldrei hefur þátttaka fallið niður í heild sinni. „Enda eru nú fordæmalausir tímar og hefur til að mynda aldrei þurft að fella niður þing Norðurlandaráðs, líkt og nú er raunin,“ segir Ragna.

Forsætisnefnd þingsins ákvað í mars að fella niður vinnutengdar ferðir þingmanna og starfsfólks Alþingis frá og með 17. mars út vorþingið. Sú ákvörðun hefur ekki verið framlengd, enda hefðbundinni þátttöku í alþjóðastarfi sjálfhætt þegar þingmannafundir og -ráðstefnur hafa færst í rafrænt form að frumkvæði skipuleggjenda.

Allsherjarþingið kemur saman einu sinni á ári. Þingið hefst þriðja þriðjudag í september og varir fram í desember. Fulltrúar allra aðildarríkja eiga þar sæti . sisi@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert