Til skoðunar er að færa viðbúnað almannavarna af hættustigi og á neyðarstig á höfuðborgarsvæðinu í ljósi þess fjölda smita sem greinst hafa síðastliðinn sólarhring. Í gær greindust 75 ný tilfelli kórónuveirunnar og voru 72 þeirra á höfuðborgarsvæðinu.
Víðir Reynisson sagði á upplýsingafundi almannavarna í dag að ef búið væri að taka nýtt litakóðunarkerfi almannavarna í gagnið væri rauð viðvörun í gildi á höfuðborgarsvæðinu. Það þýddi að líklegt væri að aðgerðir innanlands yrðu hertar með skömmum fyrirvara.
Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra, sagði á upplýsingafundi í dag að ef viðbúnaður almannavarna yrði færður upp á neyðarstig væri það einungis til þess að heilbrigðisstofnanir og aðrar stofnanir samfélagsins fengju skýr skilaboð um alvöru faraldursins.
„Sú vinna er í gangi og hún mun fara fram samhliða áhættumati sóttvarnalæknis. Þetta skýrist betur seinna í dag.“
Í raun skipti neyðarstig almannavarna ekki miklu fyrir almenning en Víðir segir þó að það sendi ákveðin skilaboð til almennings að stofnanir samfélagsins séu komnar á neyðarstig.
Víðir segir einnig að búið sé að fjölga í smitrakningarteymi almannavarna og ljóst að það þurfi að hafa samband við yfir 500 manns í dag við smitrakningu.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði á fundinum að ekki væri búið að ákveða hvort eða hvernig herða ætti aðgerðir innanlands í ljósi þeirra smita sem upp hafa komið síðustu daga. Hann segir að það muni ráðast á næsta sólarhring hver tilmæli hans verði til heilbrigðisráðherra um næstu skref.
Þórólfur hvatti einnig til grímunotkunar við skólahald í framhalds- og háskólum og í leikhúsum og á öðrum stöðum þar sem margir koma saman. Hann ítrekaði þó að ekki væri verið að setja á almenna grímuskyldu. Einungis væri um tilmæli til almennings að ræða.