Spurn eftir bréfum í nýafstöðnu hlutafjárútboði Icelandair var 85% meiri en framboðið. Fyrir útboðið voru fjórir íslenskir lífeyrissjóðir meðal fimm stærstu hluthafa.
Heimildir Morgunblaðsins herma að einn þeirra, Gildi lífeyrissjóður, hafi tekið þátt í útboðinu, en ekki fékkst staðfest að hve miklu leyti. Staðfest er að Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins skráði sig fyrir tveimur milljörðum króna í útboðinu. Birta og Lífeyrissjóður verslunarmanna tóku hins vegar ekki þátt í því.
Nýr hluthafalisti hefur ekki fengist uppgefinn, en heimildarmenn blaðsins telja líklegt að í ljós muni koma mjög breiður eigendahópur úr öllum áttum.
Í umfjöllun um málefni Icelandair í Morgunblaðinu í dag segir Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra niðurstöðu útboðsins draga úr líkum þess að félagið þurfi að sækja í lánalínur ríkisbankanna tveggja.