Gera hlé á mestri starfsemi Reykjalundar

Vonast er til þess að starfsemi Reykjalundar geti hafist að …
Vonast er til þess að starfsemi Reykjalundar geti hafist að fullu á nýjan leik mánudaginn 28. september. mbl.is/Sigurður Bogi

„Við erum að vinna með smitrakningarteyminu að finna út hverjir þurfa að fara í sóttkví og hverjir ekki – það verður einhver hópur. Á meðan þá eru flestir starfsmenn hvattir til að vera heima,“ segir Pétur Magnússon, forstjóri Reykjalundar, í samtali við mbl.is.

Greint var frá því í dag að þrjú smit hafi greinst hjá starfsfólki Reykjalundar til viðbótar við eitt smit sem greindist á miðvikudaginn síðastliðinn. Þá hefur einn skjólstæðingur Reykjalundar greinst með COVID-19.

Í ljósi þess ákvað framkvæmdastjórn Reykjalundar að gera meðferðarhlé hjá öllum þjónustuþegum dag- og göngudeilda Reykjalundar í vikunni, þ.e. daganna 21.-25. september.

Ekki hægt að taka neina sénsa

„Það er eiginlega lunginn af starfsemi Reykjalundar,“ segir Pétur sem býst við því að einhver fjöldi starfsmanna og skjólstæðinga þurfi að fara í sóttkví í ljósi þeirra nýju smita sem hafa greinst.

„Í síðustu viku fóru 18 starfsmenn í sóttkví og svipaður hópur skjólstæðinga. Ég get ekki svarað því hversu margir það verða núna en það verður líklega annað eins.“

Aðspurður segir Pétur það mjög slæmt að þurfa grípa til meðferðarhlésins, sem hefur áhrif á rúmlega eitt hundrað skjólstæðinga, en það sé öruggast í ljósi stöðunnar.

„Við hörmum að þurfa að grípa til þessara aðgerða en við erum að fást við mjög viðkvæman hóp, sem eru skjólstæðingar Reykjalundar, þannig að við getum ekki tekið neina sénsa. Enda er ekkert víst að mjög margir af þeim myndu vilja koma þó það væri opið hjá okkur.“

Vonast er til þess að starfsemi Reykjalundar geti hafist að fullu á nýjan leik mánudaginn 28. september.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert