Lífið er eins og maraþon

Þorvaldur Davíð Kristjánsson leikari vill ekki hafa öll eggin í …
Þorvaldur Davíð Kristjánsson leikari vill ekki hafa öll eggin í sömu körfu og leggur því stund á meistarnám í Oxford. mbl.is/Ásdís

Það var bjartur og fagur sunnudagsmorgunn og leiðin lá niður á Skólavörðustíg á hið skrautlega kaffihús Babalú. Bærinn var að rumska og Hallgrímskirkjuklukkurnar glumdu hátt og snjallt; klukkan var ellefu og messan að hefjast. Blaðamaður skundaði inn á kaffihúsið og upp á aðra hæð og fast á hælana kom viðmælandinn, leikarinn Þorvaldur Davíð Kristjánsson. Hann er önnum kafinn um þessar mundir við tökur á nýrri bíómynd en átti frí á þessum hvíldardegi og gaf sér tíma til spjalls. Með rjúkandi kaffi í bollum komum við okkur fyrir í eldgömlu vínrauðu plastsófasetti, undir súð sem alsett er gömlum póstkortum. Það fór vel um okkur innan um gamla muni, útsaumaða púða og ljósmyndir úr fyrndinni. Svolítið eins og að vera heima hjá sérviturri ömmu.

Tólf tíma dagar

Spjallið hefst á kvikmyndinni sem Þorvaldur leikur í um þessar mundir, en tökur standa nú sem hæst á Svari við bréfi Helgu, eftir samnefndri bók Bergsveins Birgissonar, í leikstjórn Ásu Helgu Hjörleifsdóttur. Myndin verður vonandi tilbúin að ári. 

„Við erum búin að vera í mánuð í tökum; hér í Reykjavík, Hvalsnesi en þó aðallega á Ströndum. Ég leik Bjarna bónda og ferlið er búið að vera frábært. Dásamlegt að fá að vinna aftur með Ásu Helgu. Hún er svakalega flinkur leikstjóri og hefur einstakt lag á okkur leikurunum. Hera Hilmarsdóttir og Aníta Briem leika meðal annars í myndinni. Aníta leikur líka með mér í Ráðherranum. Við lékum fyrst saman tólf ára í Kardemommubænum og þekkjumst því vel,“ segir hann og brosir.

Er þetta erfitt hlutverk?

„Hvert verkefni hefur sínar áskoranir. En þetta verkefni er sennilega eitt mest krefjandi hlutverk sem ég hef tekið að mér í gegnum árin. Hlutverkið er stórt og krefst mikils af leikaranum. Sögusviðið er líka framandi fyrir mér. Sveitalíf á Ströndum, þar sem ég þarf að leika bónda og forðagæslumann. Ég hef reyndar áður leikið vinnumann á bóndabæ og hafði því farið í gegnum ferlið að vera maður í náttúrunni, vinnandi maður á bóndabæ. Sú reynsla hefur hjálpað til í vinnuferlinu. Það hefur líka hjálpað til að vera umkringdur hæfileikaríku kvikmyndagerðarfólki og góðum meðleikurum. Þegar maður er umkringdur svona góðu fólki þá er miklu auðveldara að treysta og gefa ímyndunaraflinu lausan tauminn. En já, vissulega er þetta krefjandi og margt í gangi tilfinningalega hjá persónum sögunnar.“ 

Rómantíski fangaklefinn

Þorvaldur fór í leiklistarskólann hér heima og kláraði fyrsta árið en fór þá til New York í hinn virta Juilliard-listaskóla þar sem hann lagði stund á leiklist í fjögur ár.

„Það var rosalegt ævintýri,“ segir Þorvaldur og segist hafa fengið hlutverk í Hollywood-mynd stuttu eftir útskrift.

„Ég lék leigumorðingjann Blue Eyes í Dracula Untold; ég átti að drepa Drakúla. Ég var í Belfast í tökum í nokkra mánuði; það var mjög fínn tími,“ segir hann og brosir.

Var það draumur hjá þér að slá í gegn í Ameríku?

„Draumur, nei. Mig langaði alltaf að búa í New York og læra þar og hvað kæmi á eftir var opið; hvort ég kæmi heim eða yrði áfram úti. Þegar ég hafði sem mestan áhuga á leiklist snerist þetta um verkefnin. Ég vildi fá krefjandi verkefni; hvort sem þau væru á Íslandi eða í útlöndum,“ segir hann og segir að lengi hafi blundað í sér að búa í New York.

„Sá draumur byrjar strax í æsku; ég horfði mikið á bíómyndir og margar þeirra gerast í New York. Mér fannst ég þekkja borgina. Það var svo frábært að búa þarna, en eftir á að hyggja hefði ég átt að njóta borgarinnar betur, en tíminn fór í námið og svo auðvitað var maður fátækur námsmaður,“ segir hann og lýsir vistarverum sínum í stórborginni.

„Ég bjó fyrst inni á heimavist skólans. Herbergin voru eins og afar litlir fangaklefar, með góðu útsýni yfir New York; það er ekki hægt að kvarta yfir því. Þar deildi ég koju með píanóleikara frá Chicago og einu baðherbergi með átta öðrum strákum úr skólanum.“
Ári síðar flutti hann úr „rómantíska fangaklefanum“, eins og hann orðar það, yfir í hús fyrir aftan Metropolitan-óperuna.

„Þrátt fyrir að vera nálægt óperunni var þessi íbúð í gettói og ég deildi henni með tveimur bekkjarfélögum. Hún var eiginlega verri en heimavistin,“ segir hann og hlær.

Að víkka sjóndeildarhringinn

Þorvaldur flutti heim að loknu námi árið 2012, enda kominn með íslenska konu, Hrafntinnu Karlsdóttur. Í dag eiga þau tvær dætur, þriggja og sjö ára.

Eftir heimkomuna hefur hann unnið sjálfstætt og ekki viljað fastráða sig hjá leikhúsum borgarinnar.

„Það hefur verið mitt val. Það felst vissulega ákveðið öryggi í því að vera á föstum samningi hjá leikhúsunum og ég skil vel að fólk í okkar stétt sækist eftir því, en mér hefur þótt það hingað til vera bindandi að fastráða mig hjá leikhúsunum. Ég hef verið heppinn með verkefni og því hefur þessi lausamennska hentað vel. Þá er ég síður bundinn um helgar og get notið þess að vera heima með fjölskyldunni. En það koma oft svona tarnir inn á milli þar sem maður þarf að vera lengi í burtu vegna kvikmyndaverkefna. Undanfarin tvö ár hef ég til að mynda þurft að vera svolítið í burtu vegna vinnu og skólamála,“ segir Þorvaldur, en hann er í MBA-námi við Oxford-háskóla í Englandi. Hann er kominn langt á veg með námið og fer utan í hverjum mánuði, viku í senn.
„Þetta er svolítið eins og að vera í Harry Potter-mynd, með allar gömlu byggingarnar. Og borgin er dásamleg. Fyrir utan hvað það er margt klárt fólk þarna sem er gaman að spjalla við. Mig langaði bara að víkka sjóndeildarhringinn; ég held það sé alveg nauðsynlegt fyrir okkur eyjarskeggja.“

„Lífið er frekar eins og marþon heldur en spretthlaup. Það …
„Lífið er frekar eins og marþon heldur en spretthlaup. Það er eins og kaflar í bók og til að ná sem mestu út úr bókinni sjálfri þá þarf maður að staldra við og taka inn hvert orð og hverja setningu,“ segir Þorvaldur. mbl.is/Ásdís

Af hverju datt þér í hug að fá þér MBA-gráðu?

„Ég er einfaldlega á þeim tímapunkti í mínu lífi að mig langaði að prófa eitthvað nýtt. Ég er búinn að leika síðan ég var tíu eða ellefu ára og ég var bara orðinn þreyttur á þessu. Mig langaði að gera eitthvað annað og eiga möguleika á öðru en leiklist. Fjármál eða rekstrarhagfræði heilla mig kannski ekki, heldur frekar að skapa og hrinda hlutum í framkvæmd. Ég vildi líka kynnast nýju fólki og læra af því. Í bekknum er fólk frá öllum heimshornum og maður lærir svo margt af því og um leið kynnist ég öðrum menningarheimum. Á sama tíma öðlast ég þekkingu á viðskiptatengdum hlutum sem hjálpa manni kannski að búa eitthvað til seinna meir.“

Kafar djúpt í staðalímynd

Við vendum kvæði okkar í kross og hoppum fram í nútímann, því á sunnudag frumsýnir RÚV Ráðherrann, nýja íslenska sjónvarpsseríu framleidda af Sagafilm. Þar leikur Ólafur Darri Ólafsson forsætisráðherra og formann Sjálfstæðisflokksins sem greinist með geðhvörf. Þorvaldur Davíð leikur þar stórt hlutverk; varaformann Sjálfstæðisflokksins.

„Ég er ekki búinn að sjá þáttinn og veit ekki hvað ég má segja mikið,“ segir hann sposkur.
„Karakterinn minn heitir Grímur og er hann varaformaður Sjálfstæðisflokksins. Hann er klókur, vel klæddur og öruggur með sig á yfirborðinu. Hann er líka mjög kappsamur. Þegar ég hef sagt fólki frá því hvað Grímur gerir og í hvaða flokki hann er þá eru fyrstu viðbrögð margra að dæma hann. Í hugum margra er bara ein ákveðin staðalímynd af ungum sjálfstæðismanni, einstaklingshyggju-pabbastrákur úr Garðabænum sem skilur ekki hugtakið fátækt. Þannig að persónulega fannst mér áhugavert að spyrja; „hver er maðurinn? Hver er þessi, Grímur?“ Ég vildi skilja Grím og komast framhjá þessari staðalímynd, reyna að skilja ástæðuna fyrir þeim ákvörðunum sem hann tekur í lífinu og af hverju hann er með gat í hjartanu líkt og við öll,“ segir hann. 

„Það er margt krassandi sem gerist í þáttunum og það er bæði drama og spenna.“

Þorvaldur Davíð leikur ungan sjálfstæðismann í Ráðherranum.
Þorvaldur Davíð leikur ungan sjálfstæðismann í Ráðherranum. Ljósmynd/Lilja Jónsdóttir

Verður framhald?

„Það hefur að minnsta kosti gengið vel að selja þetta. Þættirnir voru nýlega tilnefndir til evrópsku ljósvakaverðlaunanna PRIX Europa sem besta leikna sjónvarpsefnið. Þetta býður upp á framhald,“ segir Þorvaldur og segist spenntur að sjá alla seríuna.

Eins og kaflar í bók

Hallgrímskirkjuklukkur slá tólf og það fer að koma tími til að kveðja. Þorvaldur Davíð þarf að nýta frídaginn í að njóta með fjölskyldunni áður en við taka margir tólf tíma vinnudagar. 

Þrátt fyrir annríki segist Þorvaldur vera að reyna að einfalda líf sitt.

„Lífið er frekar eins og marþon heldur en spretthlaup. Það er eins og kaflar í bók og til að ná sem mestu út úr bókinni sjálfri þá þarf maður að staldra við og taka inn hvert orð og hverja setningu. Stundum skilur maður ekki allt og þá þarf maður líka bara að leyfa sér að anda með og flæða áfram í gegnum blaðsíðurnar og gera sitt besta. Ég tel mig vera að átta mig betur og betur á því hvað lífið snýst raunverulega um, að mikilvægast sé að eyða tíma með fólkinu sem manni þykir vænt um, hafa gaman og njóta þessa kraftaverks sem lífið er. Það snýst allt um það þegar allt kemur til alls; að verja tíma með fólkinu sem maður elskar.“

Lesa má viðtalið í heild sinni hér á mbl.is í vefútgáfu Morgunblaðsins.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert