„Ég kenni mér einskis meins“

„Þetta eru smit sem koma utan úr samfélaginu hjá starfsfólki. …
„Þetta eru smit sem koma utan úr samfélaginu hjá starfsfólki. Þó okkar starfsfólk vinni mikið og sé mjög varkárt og ábyrgt þá getur alltaf eitthvað gerst. Þessi veira hefur stundum verið mjög lúmsk og smitast af ótrúlega litlu tilefni þó í önnur skipti sé það alls ekki svo svo hún er býsna óútreiknanleg,“ segir Páll. mbl.is/Golli

„Við telj­um að við séum búin að ná tök­um á þessu. Það mik­il­væga er að eng­inn sjúk­ling­ur hef­ur sýkst vegna smita starfs­fólks,“ seg­ir Páll Matth­ías­son, for­stjóri Land­spít­al­ans.

Tveir klas­ar smita hafa greinst á meðal starfs­fólks spít­al­ans en á ann­an tug starfs­manna eru í ein­angr­un og um 200 í sótt­kví en það er minna en var þegar mest lét í far­aldr­in­um í vor. Frá upp­hafi far­ald­urs hafa 900 starfs­menn spít­al­ans þurft að fara í ein­angr­un og/​eða sótt­kví vegna kór­ónu­veiru­smita.

Páll seg­ir að hann hafi áhyggj­ur af fjölda smita en spít­al­inn er nú á hættu­stigi.

„Við sett­um spít­al­ann á hættu­stig vegna þess að við töld­um að þess­ar sýk­ing­ar starfs­fólks gætu truflað starf­sem­ina,“ seg­ir Páll sem er sjálf­ur í sótt­kví en finn­ur ekki fyr­ir ein­kenn­um og mæld­ist nei­kvæður í fyrstu skimun.

„Ég kenni mér einskis meins,“ seg­ir Páll.

Ekk­ert öðru­vísi að stýra spít­ala úr sótt­kví

Ann­ar klasi smit­anna kom upp á skrif­stofu Land­spít­ala og hinn í skurðlæknaþjón­ustu. Tek­ist hef­ur að skipu­leggja hana þannig að vaktþjón­usta er óbreytt en smit­in hafa þó ein­hver áhrif á val­kvæða starf­semi. Eng­in smit hafa komið upp hjá skjól­stæðing­um spít­al­ans vegna smita starfs­fólks.

250 voru skimaðir í gær, starfs­fólk sem hef­ur tök á því er hvatt til að vinna heima og grímu­skylda hef­ur verið tek­in upp á öll­um spít­al­an­um. Áður var hún fyrst og fremst í klín­ískri starf­semi.

„Síðan erum við að breyta regl­um varðandi mat­sali, það er ekki sjálf­skömmt­un í mat­saln­um og fólk get­ur fengið mat send­an upp á deld­ir,“ seg­ir Páll.

Hvernig er að stýra ein­um stærsta vinnustað lands­ins úr sótt­kví?

„Það er í sjálfu sér ekk­ert öðru­vísi. Auðvitað get ég ekki farið um og hitt fólk en ég er mikið á fjar­fund­um og í sím­an­um og stýri þess­ari starf­semi þannig. Svo er mikið af öfl­ug­um stjórn­end­um og starfs­fólki inn­an spít­al­ans. Þetta er þekk­ing­ar­vinnustaður og það þarf ekki að hand­stýra hon­um frá degi til dags.“

Gerðar breyt­ing­ar á flakki nema

Starfsmaður sem starfar á sömu hæð og Páll greind­ist smitaður. Þeir höfðu ekki verið í sam­skipt­um en þó var talið viss­ara að senda alla sem á hæðinni starfa í sótt­kví vegna hættu á snert­ismiti.

Land­spít­ali er há­skóla­sjúkra­hús en eðli náms nema frá Há­skóla Íslands er með þeim hætti að nem­ar fara gjarn­an á milli deilda til að sækja sér þekk­ing­ar. Spurður hvort flakk nem­anna hafi verið tak­markað í far­aldr­in­um seg­ir Páll:

„Land­spít­ali er Há­skóla­sjúkra­hús. Við mennt­um yfir 2.000 nema á hverju ári, það er eitt af okk­ar mik­il­væg­ustu hlut­verk­um því án þess er eng­in framtíð í heil­brigðisþjón­ustu. Við leggj­um gríðarlega áherslu á það og það að nem­ar geti mætt. Í far­aldr­in­um í vor voru gerðar ákveðnar breyt­ing­ar til að draga úr því að nem­ar róteruðu á milli deilda, það er verið að skoða hvernig er best að koma því fyr­ir núna en við leggj­um gríðarlega áherslu á mennt­un nem­anna.“

Smit­klas­ana má ekki rekja til nema.

„Þetta eru smit sem koma utan úr sam­fé­lag­inu hjá starfs­fólki. Þó okk­ar starfs­fólk vinni mikið og sé mjög var­kárt og ábyrgt þá get­ur alltaf eitt­hvað gerst. Þessi veira hef­ur stund­um verið mjög lúmsk og smit­ast af ótrú­lega litlu til­efni þó í önn­ur skipti sé það alls ekki svo svo hún er býsna óút­reikn­an­leg,“ seg­ir Páll.

Mik­ill kraft­ur á göngu­deild­inni

Mik­ill fjöldi kór­ónu­veiru­smita hef­ur greinst upp á síðkastið hér­lend­is. Spurður hvort Land­spít­al­inn bú­ist við meira álagi á næst­unni vegna þeirra seg­ir Páll:

„Þó að fólk virðist al­mennt ekki verða eins veikt eins og í vor má al­veg bú­ast við því. Við sjá­um að það er vax­andi fjöldi sem Covid-göngu­deild­in sinn­ir, enda sinn­ir hún öll­um sem eru sýkt­ir en við erum ekki með neina sem hafa þurft inn­lögn síðustu daga og erum ekki með neina sem eru flokkaðir rauðir, en slík flokk­un merk­ir yf­ir­vof­andi inn­lögn. Við fylgj­umst náið með þessu dag frá degi. Það er mjög mik­il­vægt að halda utan um og styðja þá ein­stak­linga sem eru með sýk­ingu.“

Páll seg­ir að spít­al­inn sé til­bú­inn í að tak­ast á við meira álag vegna COVID-19 ef svo verði.

„Göngu­deild­in okk­ar lokaði aldrei. Það er al­veg ótrú­legt að sjá kraft­inn á göngu­deild­inni.“

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert