„Ég vildi aldrei drepa bróður minn“

Gunnar Jóhann Gunnarsson kvað ásetning sinn aldrei hafa staðið til …
Gunnar Jóhann Gunnarsson kvað ásetning sinn aldrei hafa staðið til þess að ráða Gísla Þór hálfbróður sinn af dögum í Mehamn 27. apríl í fyrra. Hann lagði spilin á borðið við aðalmeðferðina í Vadsø í dag. Ljósmynd/Erik Brenli/iFinnmark

„Mér fannst þetta mjög skemmti­leg­ur tími og á góðar minn­ing­ar frá þess­um tíma. Ég veit að ég drakk áfengi og ég veit að ég er há­vær og ég veit að ég er hvat­vís. Ég veit það al­veg líka að ég segi oft hluti sem ég meina ekki.“

Þessi orð lét Gunn­ar Jó­hann Gunn­ars­son falla snemma í framb­urðar­skýrslu sinni fyr­ir Héraðdómi Aust­ur-Finn­merk­ur í dag þegar Kåre Skog­nes héraðsdóm­ari bað hann að rifja upp sam­búð og sam­skipti þeirra Elenu Unde­land, barn­s­móður og fyrr­ver­andi eig­in­konu hans.

„Við kom­um hingað til Nor­egs til að leita okk­ur að betra lífi,“ rifjar Gunn­ar Jó­hann upp, en í morg­un hófst aðalmeðferð í máli héraðssak­sókn­ara Troms og Finn­merk­ur gegn hon­um í Héraðsdómi Aust­ur-Finn­merk­ur í Vadsø, nyrst í Nor­egi, skammt frá Mehamn, þar sem sá voðaat­b­urður er málið snýst um átti sér stað snemma morg­uns 27. apríl í fyrra.

Gunn­ar rifjar þarna upp flutn­ing þeirra Elenu, sem er hálfn­orsk, til Nor­egs árið 2014. All­ar dyr hafi þá staðið opn­ar, þau notið góðrar aðstoðar við at­vinnu­leit og nefndi Gunn­ar þar sér­stak­lega Norðmann sem út­vegaði hon­um bát og var hjálp­leg­ur á alla lund.

Fljót­lega hafi þó farið að síga á ógæfu­hliðina. Bakkus var Gunn­ari myllu­steinn um háls og setti mark sitt á sam­búð þeirra.

Höndlaði ekki góðærið

„Það er ein­hvern veg­inn þannig með mitt líf að þegar hlut­irn­ir ganga mjög vel þá er eins og ég höndli ekki góðærið. Vanda­málið mitt með áfengi er að ég drekk þegar ég er glaður og ég drekk þegar ég er leiður. Ég vil ekki meina að ég hafi alltaf verið reiður og vond­ur þegar ég var að drekka, en vissu­lega var ég það stund­um,“ játaði Gunn­ar.

Áður en hann hóf mál sitt hafði Elena, barn­s­móðir hans, fyrr­ver­andi eig­in­kona og höfuðvitni Tor­stein Lindquister sak­sókn­ara í mál­inu, stigið í vitna­stúk­una og rætt sam­band þeirra, sína sýn á barns­föður sinn og fleira sem að lok­um leiddi til ör­laga­ríks fund­ar hálf­bræðranna í apríl í fyrra, en Gísli Þór heit­inn og Elena höfðu þá fellt hugi sam­an um nokk­urra mánaða skeið.

Gunnar Jóhann kveðst hafa verið með böggum hildar í apríl …
Gunn­ar Jó­hann kveðst hafa verið með bögg­um hild­ar í apríl í fyrra eft­ir að hann komst á snoðir um sam­band hálf­bróður síns og barn­s­móður. Full­yrti hann þó fyr­ir héraðsdómi í dag að ætl­un hans hefði aldrei verið að verða bróður­bani. mbl.is/​Atli Steinn Guðmunds­son

Hvatti Skog­nes héraðsdóm­ari viðstatt fjöl­miðlafólk ein­dregið til að gæta að því að fleiri vitni ættu eft­ir að stíga fram næstu daga og mælt­ist til þess að frá­sögn­um af framb­urði ein­stakra vitna yrði eft­ir föng­um stillt í hóf og eru þau til­mæli virt hér.

Elena flutti tíma­bundið til Íslands í janú­ar 2018 eft­ir að upp úr sauð milli þeirra Gunn­ars og sam­bandi þeirra lauk 10. júní 2017 og viður­kenndi hann sinn þátt þar án und­an­bragða.

„Hún var margoft búin að biðja mig að fara í meðferð. Ég ætlaði í meðferð hér í Nor­egi en þá var lokað yfir sum­ar­tím­ann svo ég kaus að fara í meðferð á Íslandi,“ sagðist Gunn­ari frá.

Sagði Gunn­ar þau Elenu hafa rætt sam­an í síma á hverj­um degi á meðan þau voru hvort í sínu land­inu auk þess sem Gunn­ar hafi átt sam­töl við börn­in á Facetime.

Eins og Gunn­ar hafði kosið sjálf­ur leitaði hann sér áfeng­is­meðferðar á Íslandi á þess­um tíma og kveðst þá jafn­an hafa átt næt­urstað hjá Elenu þrátt fyr­ir að hafa vel vitað að fóst­ur­föður henn­ar líkaði það ekki alls kost­ar.

Hugðist sam­eina fjöl­skyld­una

Gunn­ar fór svo aft­ur til Nor­egs að meðferð lok­inni og bjó þá hjá Gísla hálf­bróður sín­um í Mehamn sem þá var í sam­bandi með lit­há­enskri konu sem hafi verið mjög í nöp við að Gunn­ar hefði komið með son sinn inn á heim­ili Gísla. „Hún var al­veg ótrú­lega und­ar­leg, hún vildi bara ekki hafa mig þarna með son minn,“ rifjaði Gunn­ar upp.

Skog­nes héraðsdóm­ari innti Gunn­ar eft­ir því hvernig hon­um hefði verið inn­an­brjósts eft­ir að hann kom aft­ur til Nor­egs að lok­inni áfeng­is­meðferð. „Mér leið skelfi­lega. Ég trúði því sjálf­ur að ég gæti sam­einað fjöl­skyld­una aft­ur.“ Seg­ir Gunn­ar viðhorf Elenu þá hafa verið breytt og hefði hún tjáð hon­um að ekk­ert yrði á milli þeirra aft­ur.

Greindi Gunn­ar frá því að sjálfs­vígs­hugs­an­ir hafi gerst áleitn­ar á þess­um tíma og mánuðina á eft­ir, sem eru út­mánuðir árs­ins 2019. „Öll okk­ar sam­skipti voru eitruð á þess­um tíma og það var ekki bara ég sem var að segja slæma hluti, það þarf tvo til að dansa tangó. Þetta var öm­ur­leg­ur tími fyr­ir mig,“ sagði ákærði.

Upp úr miðjum apríl í fyrra var Gunn­ar að eig­in ósk lagður inn á geðdeild í Kara­sjok, sveit­ar­fé­lagi suður af Mehamn. Hon­um hafi þá verið kunn­ugt um að hálf­bróðir hans og fyrr­ver­andi eig­in­kona áttu í sam­bandi og þyngdi sú staðreynd hon­um mjög. Hefði hann brugðist ókvæða við og hótað þeim báðum líf­láti sem varð til þess að hon­um var dæmt nálg­un­ar­bann gagn­vart Gísla Þór og Elenu.

Grétu bara með mér

Dag­inn fyr­ir and­lát Gísla Þórs yf­ir­gaf Gunn­ar Jó­hann geðdeild­ina í Kara­sjok að eig­in ósk og hélt til Mehamn. Skog­nes héraðsdóm­ari spurði hver hvat­inn að því hafi verið.

„Þar var enga hjálp að fá, þar á staðnum var eng­inn geðlækn­ir, bara ein­hverj­ir stuðnings­full­trú­ar. Ég grét stans­laust og þau grétu bara með mér,“ greindi Gunn­ar frá og sagði ekk­ert heil­brigðis­starfs­fólk á deild­inni í Kara­sjok hafa haft nokk­urn skiln­ing á því sem hann glímdi við.

Kvöldið fyr­ir morg­un­inn ör­laga­ríka kom Gunn­ar til Mehamn með leigu­bif­reið.

„Leigu­bíll­inn stoppaði fyr­ir utan húsið mitt, ég er að taka tösk­una úr bíln­um. Þá stopp­ar Norðmaður sem heit­ir [A], ég man ekki eft­ir­nafnið, og sagði „það er leiðin­legt að sjá hvað bróðir þinn er að gera með fyrr­ver­andi kon­unni þinni,“ og það stakk mig í hjartað. „Já, hvað get­ur maður sagt?“ sagði ég bara, ég gat ekk­ert annað sagt,“ sagði Gunn­ar frá.

Vadsø í austurhluta Finnmerkur, skammt frá landamærum Noregs og Rússlands. …
Vadsø í aust­ur­hluta Finn­merk­ur, skammt frá landa­mær­um Nor­egs og Rúss­lands. Mál Gunn­ars Jó­hanns er rekið fyr­ir héraðsdómi þar fram á þriðju­dag í næstu viku. mbl.is/​Atli Steinn Guðmunds­son

„Svo fór ég að sækja póst­inn minn og hitti þar móður [X, ann­ars Íslend­ings sem er vitni í mál­inu]. Við fór­um heim til mín og seinna komu fleiri þangað, Norðmenn. Ég sagði [X] hvað [A] hefði sagt við mig. Mér leið eins og ég hefði verið sett­ur út á torg nak­inn og all­ir væru að horfa á mig. Skömm­in var svo mik­il. Að bróðir minn hafi verið að læðast inn til barn­s­móður minn­ar og ætlað að koma börn­un­um mín­um í föðurstað. Gísli og Elena var fólkið sem ég elskaði meira en nokkuð annað. Ég trúði ekki að þetta væri að ger­ast og gat ekki hugsað um annað,“ sagði Gunn­ar.

Hann játaði fyr­ir dómi að hafa átt í hót­un­um við Elenu og Gísla Þór, hótað þeim báðum líf­láti. Lindquister sak­sókn­ari spurði þá hvað hefði búið að baki þeim hót­un­um.

„Ég sagði þetta allt af því að ég vildi hóta Gísla,“ svaraði Gunn­ar að bragði. „Ég vildi fá hann til að hætta þessu. Hvað átti ég að segja við hann? Ég er ís­lensk­ur sjó­maður, ég segi við fólk „ég drep þig!“ ef ég er ósátt­ur við það, en það hef­ur þó aldrei gerst áður.

„Ég vildi aldrei drepa bróður minn“

Ég vildi aldrei drepa bróður minn. Ég hélt að Gísli myndi bara stoppa og hætta þessu. Svo þegar ég kem til Mehamn lít­ur allt bara út fyr­ir að hann sé flutt­ur inn til henn­ar [Elenu]. Ég hugsaði líka um börn­in, hversu fá­rán­legt þetta væri fyr­ir þau, að Gísli væri frændi þeirra og fóst­urpabbi, þetta var bara svo mikið brjálæði fyr­ir mér,“ sagði Gunn­ar og hækkaði raust sína ör­lítið.

Skog­nes héraðsdóm­ari bað Gunn­ar þá að rifja upp nótt­ina ör­laga­ríku.

„Strák­arn­ir sögðu við mig „Gunn­ar, í kvöld skul­um við bara drekka,“ og ég var svo sátt­ur við það, ég vildi bara drekka mig full­an og geta gleymt ástand­inu í bili. Við fór­um svo út, fór­um á skemmti­staði en það var bara eng­inn úti að skemmta sér þetta kvöld. Svo þegar við kom­um á Nis­sen-bar­inn [í Mehamn] hellt­ist þetta allt yfir mig aft­ur, ég fór að hugsa um hvernig bróðir minn gæti gert mér þetta. Og þá ákvað ég að fara heim til hans og hræða hann,“ seg­ir Gunn­ar.

Mette Yvonne Larsen, réttargæslumaður brotaþola í Mehamn-málinu, sagðist í janúar …
Mette Yvonne Lar­sen, rétt­ar­gæslumaður brotaþola í Mehamn-mál­inu, sagðist í janú­ar sátt við ákær­una á hend­ur Gunn­ari Jó­hanni Gunn­ars­syni, maður sem komi reiður með hlaðið skot­vopn á heim­ili hálf­bróður síns megi reikna með að eitt­hvað ger­ist. Ljós­mynd/​Henrik Everts­son/​Advo­kat­bla­det

„Ég vildi bara fá hann til að pakka niður, taka draslið sitt og bát­inn sinn og koma sér frá Mehamn. Ég hafði tvo val­kosti, annaðhvort að hengja mig og láta börn­in mín al­ast upp án mín eða fá bróður minn til að hætta þessu. Á þess­um tíma sá ég þetta sem einu val­kost­ina. Þetta var brjálæði, ég viður­kenni það al­veg,“ rifjar sak­born­ing­ur­inn upp.

„Þegar við geng­um frá Nis­sen-barn­um gekk ég hratt heim og fékk þá þessa hug­mynd í haus­inn á mér, nú ætla ég að gera þetta...

[Ég] fór svo heim til mín, þar var ann­ar maður [Norðmaður]. Ég sagði hon­um hvað ég var að hugsa og hann varð mjög stressaður.

Sótti byss­una í bát­inn

Svo keyrði ég á mín­um bíl að bátn­um sem ég var á, [Z], og sótti þangað hagla­byssu. Keyrði til baka og áttaði mig þá á að ég var ekki með nein skot svo ég keyrði aft­ur í bát­inn, sótti skot­in, keyrði svo heim og skilaði bíln­um og fór svo heim til bróður míns.“

Þar með játaði Gunn­ar Jó­hann að hann hefði haft aðgang að hagla­byssu fyr­ir fram og sagði enn frem­ur frá því að hann hefði áður sýnt norsk­um vini sín­um, [Y], skot­vopnið sem hefði hand­leikið það og norska rann­sókn­ar­lög­regl­an Kripos því fundið fingra­för þeirra beggja á vopn­inu.

Stjórn­andi lög­reglu­rann­sókn­ar­inn­ar hélt því fram við mbl.is í maí í fyrra að Gunn­ar hefði út­vegað sér skot­vopnið fyrst þá um nótt­ina en mbl.is stend­ur við þá frá­sögn sína og norska vef­miðils­ins iF­inn­mark, eft­ir framb­urðinn í dag, að Gunn­ar hafi haft aðgang að vopn­inu áður.

Heima hjá Gunn­ari var Íslend­ing­ur­inn X enn stadd­ur og seg­ir Gunn­ar X hafa grát­beðið sig að fara ekki heim til Gísla Þórs í þáver­andi ástandi.

Kirkjan í Mehamn setur mikinn svip á þetta litla bæjarfélag …
Kirkj­an í Mehamn set­ur mik­inn svip á þetta litla bæj­ar­fé­lag við Bar­ents­hafið. Þarna hélt Maria Dale, fyrr­ver­andi sókn­ar­prest­ur brauðsins, minn­ing­ar­at­höfn um Gísla Þór Þór­ar­ins­son heit­inn 27. apríl í fyrra. mbl.is/​Atli Steinn Guðmunds­son

„Ég vonaði að Gísli væri sof­andi í sóf­an­um heima hjá sér, hann svaf alltaf í sóf­an­um,“ sagði Gunn­ar, en tóm íbúð bróður hans hafi aðeins styrkt hann í þeirri trú að Gísli Þór hefði varið nótt­inni heima hjá Elenu.

„Ég sagði hon­um að ég ætlaði bara að skjóta í sóf­ann, ég ætlaði bara að hræða Gísla,“ sagði Gunn­ar.

Heyrði úti­dyrn­ar opn­ast

Að áeggj­an dóm­ara lýsti hann svo at­b­urðarás­inni. „Ég fór inn um eld­húsið, ég vissi að Gísli heyrði illa og þar heyrðist minna. Svo fór ég inn í gamla her­bergið mitt heima hjá hon­um. Skoðaði þar Face­book hjá Gísla sem var opin í tölv­unni hans. Ég skoðaði sam­töl milli Gísla og Elenu og þar var ég að engu gerður. Ég hefði ekki getað trúað því að þau töluðu svona um mig. Ég brotnaði niður og grét.“

Næst seg­ist Gunn­ar hafa heyrt úti­dyrn­ar opn­ast.

„Ég opnaði dyrn­ar fram úr her­berg­inu og þar stóð Gísli. Ég gekk grát­andi á móti hon­um, miðaði byss­unni á hann og spurði hvernig hann gæti gert mér þetta.

Það sem gerðist svo á eft­ir var bara eins og bíl­slys, þetta gerðist svo hratt. Bróðir minn greip þá snögg­lega í byss­una, tók mjög hratt og snöggt í hana og skotið fór af. Eft­ir að skotið fór af réðst hann á mig og við dutt­um báðir á gólfið. Við slóg­umst í smá­stund og svo hljóp annað skot af byss­unni. Ég vissi ekki þá að fyrra skotið hefði farið í hann, það var enn svo mik­ill kraft­ur í hon­um að hann negldi mér í gólfið. Við börðumst um vopnið á gólf­inu.“

Er hér var komið sögu bugaðist Gunn­ar Jó­hann í frá­sögn sinni af at­b­urðum og Skog­nes héraðsdóm­ari gerði 15 mín­útna hlé.

Sá allt blóðið

„Ég vildi alls ekki að bróðir minn myndi tapa líf­inu þenn­an dag, al­veg sama hvað ég sagði dag­ana áður, þar var það bara stoltið mitt sem var að tala,“ sagði Gunn­ar er hann fékk mælt á ný.

„Eft­ir að seinna skotið hljóp af og ég sá allt blóðið áttaði ég mig á að hann hafði orðið fyr­ir skoti. Ég hlóð byss­una þá aft­ur og ætlaði að skjóta mig. Gísli sagði þá fyr­ir­gefðu og ég sagði við hann að ég ætlaði að fara og ná í hjálp. Ég veit að það voru fót­spor eft­ir mig í stof­unni sem segja annað en ég er að segja ykk­ur það að ég var bara að hugsa um að bjarga hon­um,“ sagði Gunn­ar.

Anja Mikkelsen Indbjør, saksóknari lögregluembættisins í Finnmörk, var viðstödd aðalmeðferðina …
Anja Mikk­el­sen Ind­bjør, sak­sókn­ari lög­reglu­embætt­is­ins í Finn­mörk, var viðstödd aðalmeðferðina í dag. Mynd­in er tek­in í fyrra­vor. Ljós­mynd/​Andrea Dahl/​iF­inn­mark

Hann hafi þá hlaupið aft­ur yfir í sína íbúð í Mehamn og beðið X að hringja þegar í stað á sjúkra­bif­reið. „[X] tal­ar skelfi­lega ensku og ég reif sím­ann af hon­um og sagði bara „Gísli Þór Þór­ar­ins­son, Lille­berg­veien.“

Ég var svo viss um að þeir væru bara að koma strax, ég vissi ekk­ert að það væru regl­ur um að þeir mættu ekki fara inn ef það væri byssa. [X] fór í sjokk þegar hann sá mig, ég var all­ur í blóði. Hann bað mig að keyra sig til Gam­vik­ur.

Var í al­gjöru sjokki

Ég er bú­inn að hugsa þúsund sinn­um hvað annað ég hefði getað gert til að bjarga bróður mín­um, það vita all­ir sem þekkja okk­ur að ég elskaði eng­an eins mikið og hann. Þannig að það að ég hafi viljað bróður minn dauðan er ekki satt, sama hvað hver seg­ir. Þótt ég hafi verið al­veg brjálaður út í hann hefði ég aldrei óskað þess að hann tapaði lífi sínu þenn­an dag.

Við bræðurn­ir lent­um sam­an eins og tveir bíl­ar og voðaskot hljóp af,“ sagði Gunn­ar Þór dóm­end­um og öðrum viðstödd­um í dag.

„Ég var í al­gjöru sjokki, ég var í al­gjöru sjokki al­veg þar til lög­regl­an hand­tók mig, að ég hefði óvart orðið bróður mín­um að bana. Því hefði ég aldrei trúað.

Við keyrðum til Gam­vik­ur, [X] var að skamma mig all­an tím­ann. Ég sagði hon­um að þetta væri slys. Á leiðinni yfir til Gam­vik­ur keyrði ég eins og brjálæðing­ur.“

Svo fór að Gunn­ar missti stjórn á bif­reiðinni og ók út af veg­in­um, skömmu áður en þeir X, sem um tíma lá und­ir grun í mál­inu en síðar kom í ljós að átti þar enga sök, voru hand­tekn­ir í Gam­vik.

Mátt­ur fyr­ir­gefn­ing­ar­inn­ar

„Gísli var besti gæi sem ég þekkti, við geng­um sam­an gegn­um lífið. Við feng­um ekk­ert bestu æsku sem til er, átt­um veika móður og hver hönd­in var upp á móti ann­arri. Ég skil ekki hvernig þetta endaði allt svona.“

Skog­nes spurði þá hvort Gunn­ar hefði fyr­ir­gefið hálf­bróður sín­um.

„Sko, ég var fár­veik­ur, það eina sem ég átti eft­ir var mín trú. Krist­in trú snýst öll um fyr­ir­gefn­ingu og ég er mjög trúaður [...] Ég komst að þeirri niður­stöðu þegar ég var í Kara­sjok að ef ég myndi gera bróður mín­um eitt­hvað þá myndi ég enda í fang­elsi og ef ég myndi enda í fang­elsi myndi ég ekki sjá börn­in mín. Og það eru þau sem hafa haldið líf­inu í mér þenn­an tíma síðan þetta gerðist.

Lindquister sak­sókn­ari spurði Gunn­ar hér hvort skyn­sam­legt hefði verið að ætla bara að fara að skemmta sér, ný­kom­inn út af geðdeild og með bögg­um hild­ar.

Are Sandnes, starfandi sóknarprestur í Mehamn, ræddi um sorg og …
Are Sand­nes, starf­andi sókn­ar­prest­ur í Mehamn, ræddi um sorg og sorg­ar­viðbrögð í litl­um sam­fé­lög­um við mbl.is í júní í fyrra. Kvað hann at­b­urðinn í Mehamn hvort tveggja sorg­leg­an og ógn­vekj­andi. mbl.is/​Atli Steinn Guðmunds­son

„Ég var ekk­ert að hugsa um að fara í partý eða skemmta mér, ég var bara að hugsa um að drekka brenni­vín til að deyfa van­líðan mína.“

Sak­sókn­ari spurði þá enn um drykkj­una eft­ir að Gunn­ar kom út af deild­inni í Kara­sjok. Spurði nán­ar til tekið hvort Gunn­ar hefði talið sig eiga það skilið að drekka áfengi eft­ir all­ar líf­láts­hót­an­irn­ar. Bjørn Gulstad, verj­andi Gunn­ars, mót­mælti spurn­ing­unni og var hún dreg­in til baka.

„Gastu ekki talað við hann?“

„Allt sem ég gerði þetta kvöld var út í hött,“ játaði Gunn­ar.

„Hvað var það sem gerði út­slagið um að þú ákvaðst að fara til Gísla?“ spurði sak­sókn­ari.

„Ég vildi bara fá hann burt, mér leið eins og hann væri bú­inn að setja mig al­veg út í horn. Ég vissi ekk­ert hvað ég átti að gera, hvað átti ég að gera?“

„Gastu ekki talað við hann?“ spurði Lindquister þá.

„Hann var bú­inn að fá nálg­un­ar­bann á mig. Þetta fór allt úr bönd­un­um, það fór allt í rugl þetta kvöld,“ var svarið.

„Af hverju fórstu til baka og náðir í skot­in?“ spurði sak­sókn­ari.

„Af því ég ætlaði að skjóta í sóf­ann eða gólfið.“

„Hefðirðu ekki getað farið með byss­una tóma? Hann hefði ekki vitað hvort hún væri hlaðin“

„Ég vissi ekki að þetta myndi fara svona, það komst bara ekk­ert annað að í hausn­um á mér,“ svaraði Gunn­ar Jó­hann Gunn­ars­son.

Með þess­um orðaskipt­um lyktaði aðalmeðferð í dag, fram und­an eru vitna­leiðslur og á miðviku­dag ræðir norska rann­sókn­ar­lög­regl­an Kripos sína aðkomu að mál­inu og ger­ir grein fyr­ir rann­sókn­um á vett­vangi.

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert