Hætta á kynfæralimlestingu ekki könnuð

Egypsku börnin sem enn er fyrirhugað að send verði úr …
Egypsku börnin sem enn er fyrirhugað að send verði úr landi. Ljósmynd/Sema Erla Serdar

Í máli egypsku Khedr fjölskyldunnar sem senda átti úr landi í síðustu viku var ekki kannað hvort móðir og dóttir væru í sérstaklega viðkvæmri stöðu með hliðsjón af því að yfir 90% kvenna í Egyptalandi hafa orðið fyrir kynfæralimlestingu. Þrátt fyrir það var í máli nr. 2018-02751, sem varðar aðra egypska fjölskyldu og tekin var ákvörðun um í fyrra, fjallað ítarlega um það hversu algengar kynfæralimlestingar eru í Egyptalandi. Sú fjölskylda fékk hæli hér á landi. Þetta segir lögmaður Khedr fjölskyldunnar. 

„Það er því ekki einungis að Útlendingastofnun hafi átt að þekkja þessi atriði út frá landaupplýsingum heldur liggur fyrir að Útlendingastofnun bjó í raun yfir þekkingu hvað þetta varðar og beitti í öðru máli örfáum mánuðum áður,“ segir Magnús Davíð Norðdahl, lögmaður fjölskyldunnar, sem telur að stjórnvöldum hafi láðst að framkvæma sjálfstætt og heildstætt mat á hagsmunum egypsku Khedr-barnanna sem eru fjögur talsins. 

„Varðandi stúlkuna í fjölskyldunni þá var hún 10 ára gömul þegar umsókn um hæli var lögð fram. Þá var tekið viðtal við hana. Útlendingastofnun átti með hliðsjón af rannsóknarreglu og enn fremur útfærslu á henni í 25. gr. laga um útlendinga að kanna þetta atriði sértaklega enda orðið "kynfæralimlesting" sérstaklega nefnt í ákvæðinu.“
Frá mótmælum vegna fyrirhugaðrar brottvísunar í síðustu viku.
Frá mótmælum vegna fyrirhugaðrar brottvísunar í síðustu viku. mbl.is/Kristinn Magnússon

Stefna lögð fram í dag

Spurður hvort Ísland ætti þá að taka á móti öllum egypskum konum og stúlkum sem koma hingað til lands á þeim grundvelli að kynfæralimlestingar séu svo algengar í heimalandi þeirra segir Magnús að málið snúist ekki um það heldur hvort sjálfstætt og fullnægjandi mat hafi farið fram á hagsmunum barnanna. 

„Í mati á hagsmunum barna á meðal annars að taka tillit til félagslegs þroska, velferðar og öryggis. Hvernig er hægt að halda því fram að slíkt mat á hagsmunum 10 ára gamallar stúlku hafi verið framkvæmt og sé fullnægjandi þegar engin athugun fór fram á því hvort stúlkan hafi orðið fyrir eða eigi á hættu á að verða fyrir kynfæralimlestingu, komandi frá landi þar sem slíkt er gríðarlega algengt? Yfir 90% kvenna í Egyptalandi hafa orðið fyrir kynfæralimlestingu.“

Félags- og barnamálaráðherra sagði í samtali við mbl.is í síðustu viku að honum hafi verið tjáð að mat á því hvað væri börnunum fyrir bestu hafi farið fram.

Stefna og beiðni um flýtimeðferð var í dag lögð fram í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir hönd fjölskyldunnar.

Frá mótmælum vegna fyrirhugaðrar brottvísunar sem hefur enn ekki farið …
Frá mótmælum vegna fyrirhugaðrar brottvísunar sem hefur enn ekki farið fram. mbl.is/Kristinn Magnússon

Aldrei rætt við næst yngsta drenginn

Hann bendir á að aldrei hafi verið rætt við næst yngsta drenginn í fjölskyldunni sem nú er sex ára. Fjölskyldan er nú í felum. 

„Enn fremur var ekki kannað hvort móðir og dóttir væru í sérstaklega viðkvæmri stöðu með hliðsjón af því að yfir 90% kvenna í Egyptalandi hafa orðið fyrir kynfæralimlestingu. Engin athugun fór fram á því hvort móðir og dóttir væru fórnarlamb slíks ofbeldis eða hvort þær ættu slíkt á hættu. Útlendingastofnun tók ákvörðun í máli annarrar egypskrar fjölskyldu snemma árs 2019 og fjallaði þar ítarlega um hversu algengar kynfæralimlestingar kvenna eru í Egyptalandi en sem fyrr segir hafa yfir 90% kvenna þar í landi mátt þola slíkt ofbeldi,“ segir Magnús. 

„Ég hef fulla trú á því að mál þetta leysist með farsælum hætti fyrir fjölskylduna, annaðhvort fyrir dómi eða hjá kærunefnd útlendingamála sem á enn eftir að taka afstöðu til fjögurra endurupptökubeiðna.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert