Viðgerð á leiguskipi Eimskips, Veru D, var langt komin í gær. Edda Rut Björnsdóttir, upplýsingafulltrúi Eimskips, sagði að gert væri ráð fyrir því að skipið gæti siglt frá Reykjavík í dag.
Vera D rakst utan í bryggju á Grundartanga í síðustu viku og varð fyrir skemmdum. Skipið lagði af stað í áætlunarferð síðdegis á fimmtudaginn var en var snúið við úti á Faxaflóa og kom aftur til hafnar í Sundahöfn. Skipið lá síðan við Skarfabakka lestað gámum þar sem viðgerð fór fram.
Edda Rut sagði að viðkvæmur farmur eins og ferskur fiskur hefði strax verið tekinn frá borði og sendur með öðrum skipum. Engin ferskvara er því enn um borð í skipinu, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.