Slíðra sverðin eftir lífshættulega árás

Þrjú vitni sögðu brotaþolann hafa haft hamar í hendi í …
Þrjú vitni sögðu brotaþolann hafa haft hamar í hendi í átökum við ákærða. mbl.is/Þór

Héraðsdóm­ur Reykja­vík­ur hef­ur dæmt sautján ára pilt til tíu mánaða fang­elsis­vist­ar, skil­orðsbundna til þriggja ára, fyr­ir að stinga jafn­aldra sinn í kviðinn við Jóru­fell í apríl fyrr á þessu ári. Sá hlaut lífs­hættu­lega áverka af stung­unni.

Dóm­ur í mál­inu féll í dag, en þar kem­ur fram að stung­an hafi átt sér stað við átök milli tveggja hverfa­hópa, þar sem að stofni til hafi verið dreng­ir á fjór­tánda og fimmtánda ald­ursári. Dreng­irn­ir tveir, ákærði og brotaþoli, voru þeirra elst­ir.

Úlfúð hafi verið á milli þess­ara hópa og þeir eldað sam­an grátt silf­ur um nokkra hríð. Svo virðist sem átök­in hafi stig­magn­ast og loks farið al­gjör­lega úr bönd­un­um.

Horft til ungs ald­urs drengj­anna

Þrjú vitni sögðu brotaþol­ann hafa haft ham­ar í hendi í átök­um við ákærða. Í dómn­um seg­ir að þó flokka megi ham­ar sem lífs­hættu­legt vopn við ákveðnar aðstæður, sé hníf­ur mun hættu­legri þegar til átaka kem­ur.

Ákærði hafi þá dregið brotaþola að sér áður en hann stakk hnífn­um í hann, og þar með gengið út fyr­ir mörk leyfi­legr­ar neyðar­varn­ar.

Við ákvörðun refs­ing­ar var meðal ann­ars horft til ungs ald­urs drengs­ins og þess að hann eigi ekki að baki saka­fer­il. Þá var til þess litið að ákærði og brotaþoli hefðu rætt sam­an í þing­haldi und­ir aðalmeðferð máls­ins, að viðstödd­um aðstand­end­um sín­um og dóm­ara í mál­inu, og ákveðið að slíðra sverðin þannig að ekki kæmi til frek­ari átaka milli þeirra eða þess­ara drengja­hópa.

900 þúsund í miska­bæt­ur

Auk tíu mánaða skil­orðsbund­inn­ar refs­ing­ar var ákærði dæmd­ur til að greiða brotaþola 900 þúsund krón­ur í miska­bæt­ur.

Sömu­leiðis skipaði dóm­ur­inn hon­um að greiða mál­svarn­ar­laun skipaðs verj­anda síns og þókn­un rétt­ar­gæslu­manns brotaþola, sam­tals rúm­lega 3,5 millj­ón­ir króna.

Alls þarf hann því að inna af hendi rúm­lega 4,4 millj­ón­ir króna.

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert