Snjóað gæti á fjallvegum fyrir norðan

Herjólfur sigldi til Þorlákshafnar síðdegis í gær og stímdi upp …
Herjólfur sigldi til Þorlákshafnar síðdegis í gær og stímdi upp í stífa vestanátt og krappa öldu. Ferðin tók rétt um þrjár stundir. mbl.is/Óskar Pétur Friðriksson

Stíf suðvestan- og vestanátt var með suðurströndinni í gær. Á Stórhöfða í Vestmannaeyjum mældist allt að 25 m/s vindur og hviður upp á 38 m/s í gær. Heldur dró úr vindstyrknum þegar leið á kvöldið.

Herjólfur ohf. tilkynnti í gær að veðurspá fyrir næstu daga væri ekki hagstæð fyrir siglingar í Landeyjahöfn og því líklegast að siglt yrði í Þorlákshöfn eins og gert var í gær.

Eyjamaður einn segir að nýi Herjólfur sé góður í sjó að leggja og að veltiuggarnir á honum virki mjög vel. Hann sé gott sjóskip sem komi sér vel á siglingarleiðinni milli lands og Eyja, sem geti oft verið erfið.

Veðurstofa Íslands spáði því í gær að í nótt myndi draga úr vindi en einnig því að það færi að snjóa á fjallvegum um landið norðanvert. Í dag á að verða suðvestlæg eða breytileg átt, 5-13 m/s og skúrir. Sums staðar norðanlands geta orðið él eða slydduél. Lengst af verður úrkomulítið austantil. Hitinn verður á bilinu 1-8 stig, hlýjast syðst á landinu. gudni@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert