„Það má reikna með því að gæsastofnarnir séu í alveg þokkalegu standi, mér sýnist stefna í ágætis ár,“ sagði dr. Arnór Þórir Sigfússon dýravistfræðingur. Hann er einn helsti gæsasérfræðingur landsins.
Nýjar tölur úr gæsatalningum í Bretlandi í haust eru væntanlegar í byrjun október, sem er seinna en venjulega. Ástæða seinkunarinnar er kórónuveirufaraldurinn. Þeir sem ganga frá niðurstöðunum hafa ekki verið í fullri vinnu undanfarið.
Margar gæsir bera nú senditæki sem skrá ferðir þeirra. Arnór sagði að merktar heiðagæsir séu byrjaðar að yfirgefa landið en engin grágæsanna. Merktir helsingjar halda sig enn á sínum stað. Spáð er norðanátt og þá getur heiðagæsin farið að fara.