22 starfsmenn LSH í einangrun

Biðlistaaðgerðir gætu frestast vegna þessa en Landspítali tekur þátt í …
Biðlistaaðgerðir gætu frestast vegna þessa en Landspítali tekur þátt í biðlistaátaki vegna liðskiptaaðgerða. mbl.is/Ómar Óskarsson

22 starfsmenn Landspítala eru nú í einangrun vegna kórónuveirusmita og 200 starfsmenn í sóttkví. Landspítali hefur nú þegar þurft að fresta aðgerðum vegna sóttkvíar og einangrunnar starfsmanna en 22 aðgerðum var frestað vegna þess í síðustu viku.

Þetta kemur fram í tilkynningu. „Aðgerðum er forgangsraðað þannig að allar brýnar aðgerðir eru framkvæmdar, s.s. krabbameinsaðgerðir og aðrar sem ekki þola bið“, segir m.a. í tilkynningunni. 

Landspítali er á hættustigi vegna smitanna en eins og fram kom í viðtali mbl.is við forstjóra spítalans í gær er um að ræða tvo klasa smita, annars vegar á skrifstofu spítalans og hins vegar í skurðlæknaþjónustu. Viðbragðsáætlun Landspítala vegna farsótta hefur verið virkjuð og funda viðbragðsstjórn og farsóttanefnd daglega.

Mögulega þarf að fresta liðskiptaaðgerðum

Biðlistaaðgerðir gætu frestast vegna þessa en Landspítali tekur þátt í biðlistaátaki vegna liðskiptaaðgerða.

„Vegna þeirrar stöðu sem upp er komin er hugsanlegt að fresta verði þeim aðgerðum sem fyrirhugaðar voru um komandi helgi. Endanleg ákvörðun um þetta mun liggja fyrir á fimmtudag. Sjúklingar sem bíða þessara aðgerða verða upplýstir um gang mála um leið og niðurstaða liggur fyrir“, segir í tilkynningu. 

Eins og áður hefur komið fram er nú algjör grímuskylda á spítalanum. 

„Nú hefur bæst við sú þekking að grímunotkun ásamt handhreinsun minnkar líkur á smiti umtalsvert. Því er núna algjör grímuskylda á Landspítala og ef hún er uppfyllt þá minnkar það verulega líkur á að starfsmaður lendi í sóttkví þrátt fyrir útsetningu vegna nándar við smitaðan einstakling“, segir í tilkynningunni. 

Við erum öll að læra á þennan faraldur og við breytum aðferðum og nálgun á  viðfangsefnið eftir því sem þekking okkar eykst og gögn berast sem styðja tiltekna nálgun. Rakningarteymið fer eftir þeim viðmiðum sem í gildi eru hverju sinni. Því er ekki hægt að bera saman þá nálgun sem notuð var í fyrstu bylgju og þá sem notuð er núna.“

Klínískt verknám með sama hætti

Ekki hafa verið gerðar neinar breytingar á fyrirkomulagi klínísks verknáms á Landspítala.

„Grímuskylda er hjá nemendum eins og öllu starfsfólki. Varðandi námskeiðahald þá er hvatt til þess að streyma allri kennslu/fræðslu eins og mögulegt er. Ef nauðsynlegt er að hafa fólk saman í rými þá þarf að gæta að fjarlægðamörkum og grímunotkun. Öll vafamál skal bera undir farsóttanefnd.“

Tveir liggja inni á Landspítala vegna COVID-19 og eru 282 sjúklingar í eftirliti COVID-19 göngudeildar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka