Andlát: Bryndís Pétursdóttir leikkona

Bryndís Pétursdóttir.
Bryndís Pétursdóttir.

Bryn­dís Pét­urs­dótt­ir leik­kona lést sl. mánu­dag, 21. sept­em­ber, tæp­lega 92 ára að aldri.

Bryn­dís fædd­ist 22. sept­em­ber 1928 á Vatt­ar­nesi í Fá­skrúðsfirði en flutti með fjöl­skyldu sinni til Reykja­vík­ur er hún var sex ára. For­eldr­ar henn­ar voru Pét­ur Sig­urðsson, bóndi og vita­vörður, og Guðlaug Sig­munds­dótt­ir fram­kvæmda­stjóri.

Bryn­dís gekk í Verzl­un­ar­skóla Íslands en fór 16 ára í Leik­list­ar­skóla Lárus­ar Páls­son­ar og út­skrifaðist þaðan. Hún steig fyrst á svið und­ir leik­stjórn Lárus­ar sem Cecil­ía í Jóns­messu­draumi á fá­tækra­heim­il­inu 18. nóv­em­ber 1946. Hún sté fyrst leik­ara á svið í vígslu­sýn­ingu Þjóðleik­húss­ins sem Guðrún í Ný­árs­nótt­inni.

Í Þjóðleik­hús­inu lék Bryn­dís uns hún lét af störf­um fyr­ir ald­urs sak­ir ef frá eru tal­in nokk­ur leik­rit hjá Leik­fé­lagi Reykja­vík­ur auk þess að taka þátt í leik­riti hjá Leik­fé­lagi Ak­ur­eyr­ar. Á yngri árum fór Bryn­dís á sumr­um í marg­ar leik­ferðir um landið.

Meðal minn­is­stæðra hlut­verka Bryn­dís­ar við Þjóðleik­húsið eru Rósalind í Sem yður þókn­ast, Helga í Gullna hliðinu ('52 og '55), Sybil í Einka­lífi, Sig­ríður í Pilti og stúlku, Leónóra í Æðikoll­in­um, Is­mena í An­tígónu Anou­hils, Essí í Er á meðan er, Sigrún í Manni og konu, Dor­is í Bros­inu dul­ar­fulla, María mey í Gullna hliðinu, Júlía í Romanoff og Júlíu, Helena Char­les í Horfðu reiður um öxl, Louise í Eft­ir synda­fallið, Vala í Lausn­ar­gjaldi, Enuice í Spor­vagn­in­um Girnd og Munda í Stalín er ekki hér. Síðast lék hún Helgu í Kaffi eft­ir Bjarna Jóns­son á Litla sviði Þjóðleik­húss­ins árið 1998.

Bryn­dís lék einnig í kvik­mynd­um, sjón­varpi og út­varpi. Hún fór m.a. með aðal­hlut­verk í fyrstu ís­lensku tal­settu kvik­mynd­un­um Milli fjalls og fjöru og Niður­setn­ing­un­um.

Eig­inmaður Bryn­dís­ar var Örn Ei­ríks­son loftsigl­inga­fræðing­ur, hann lést 1996. Syn­ir þeirra eru Ei­rík­ur Örn, Pét­ur og Sig­urður.

Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert