Andlát: Júlíus Kristjánsson

Júlíus Kristjánsson.
Júlíus Kristjánsson.

Júlíus Kristjánsson, framkvæmdastjóri og kennari á Dalvík, er látinn, níræður að aldri.

Júlíus fæddist í Efstakoti á Upsaströnd 16. september 1930, sonur hjónanna Kristjáns E. Jónssonar og Þóreyjar Friðbjörnsdóttur. Júlíus lauk fiskimannaprófi frá Stýrimannaskólanum í Reykjavík árið 1954 og var til sjós um nokkurn tíma auk þess að starfa við netagerð hjá Netjamönnum á Dalvík. Árið 1965 stofnaði hann Netagerð Dalvíkur hf. ásamt fleirum og hafði með höndum framkvæmdastjórn fyrirtækisins en hann lauk meistaranámi í netagerð um svipað leyti.

Um nokkurn tíma annaðist Júlíus sjóvinnukennslu sem boðin var sem valgrein við Dalvíkurskóla og þá annaðist hann ýmist kennslu eða prófdæmingu á skipstjórnarnámskeiðum til 30 tonna skipstjórnarréttinda á ýmsum stöðum norðanlands. Árið 1981 var stofnuð skipstjórnarbraut í framhaldsdeildum Dalvíkurskóla og var Júlíus ráðinn sem aðalkennari brautarinnar og starfaði sem slíkur til nokkurra ára ásamt því að hafa með höndum framkvæmdastjórn Netagerðarinnar. Hann hafði mikinn metnað fyrir hönd nemenda sinna og starfsemi námsbrautarinnar. Útskrifaðist fjöldi nemenda með 1. og 2. stigs skipstjórnarréttindi frá Dalvíkurskóla.

Júlíus var margfróður um upphaf og sögu heimabyggðar sinnar, var ættfróður og leituðu margir upplýsinga til hans um ætt sína og uppruna. Hann sat í sögunefnd Dalvíkur sem annaðist útgáfu á Sögu Dalvíkur sem kom út í fjórum bindum árin 1978-1985 en Kristmundur Bjarnason frá Sjávarborg var höfundur. Þá ritaði hann greinar sem birtust í Súlum. Hann var frumkvöðull að stofnun Héraðsskjalasafns Svarfdæla og fyrsti formaður stjórnar. Þá var hann meðal frumkvöðla að stofnun Minjasafnsins Hvols á Dalvík. Júlíus var kjörinn í veitunefnd Dalvíkur þegar unnið var að stofnun Hitaveitu Dalvíkur og uppbyggingu dreifikerfis veitunnar á Dalvík. Þá sat hann sem varafulltrúi í bæjarstjórn Dalvíkurkaupstaðar 1978-1982.

Júlíus átti samleið með Morgunblaðinu í langan tíma og var um skeið fréttaritari þess á Dalvík. Eftirlifandi eiginkona hans er Ragnheiður Sigvaldadóttir og eignuðust þau þrjá syni; Sigvalda þul, Kristján Þór ráðherra og Ásgeir Pál viðskiptafræðing. Alls eru afkomendur þeirra hjóna 18 talsins.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert