Nýliðun hefur verið góð í Mývatni síðustu ár og eru fjórir „býsna góðir“ árgangar á leiðinni, að sögn Guðna Guðbergssonar, fiskifræðings á Hafrannsóknastofnun. Hann segir að rannsóknaleiðangur um síðustu mánaðamót hafi lofað góðu og gert sé ráð fyrir auknum veiðum á silungi á næsta ári.
Veiðin gæti farið úr 2-2.500 silungum eins og algengt hefur verið síðustu ár í 5-10 þúsund fiska á næsta ári. Til samanburðar var meðalveiði á árunum í kringum 1970 um 30 þúsund silungar árlega.
Í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag segir Guðni að veiðistjórnun og verndunaraðgerðir á síðustu árum hafi greinilega skilað sér, en farið var í aðgerðir 2011 til að byggja bleikjustofninn upp í kjölfar alvarlegrar niðursveiflu. Þá hefur fæðuframboð verið stöðugt síðustu ár.
Hann leggur áherslu á að stofninn verði nýttur af skynsemi og sjálfbærni verði höfð að leiðarljósi.