Katrín fékk neikvæðar niðurstöður

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. mbl.is/Eggert

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hefur fengið neikvæðar niðurstöður úr skimun fyrir kórónuveirunni. Hún er því ekki með Covid-19 sjúkdóminn.

Frá þessu greinir ráðherrann í færslu á Facebook, þar sem hún segist hafa fengið símtal þessa efnis. Fyrir það sé hún þakklát.

„Hins vegar hefur einhver hefðbundnari flensa lagt hálft heimilið í rúmið. Við þreyjum hana, fegin og þakklát því að ekki er um sjálfa kórónuveiruna að ræða,“ bætir hún við.

Óhugnanlegt að sjá hraðann

Fjöldi smita undanfarna daga sé raunverulegt áhyggjuefni.

„Við verðum öll að gæta varúðar, munum að þvo okkur um hendur, spritta, gæta fjarlægðar og gera allt sem við getum sameiginlega til að berja niður þessa þriðju bylgju veirunnar. Það er óhugnanlegt að sjá hraðann í dreifingu veirunnar þegar hún nær sér á strik og það er líka óhugnanlegt að lesa og heyra um eftirköst margra þeirra sem veiktust í vor,“ skrifar Katrín.

„Í flugi frá Egilsstöðum í síðustu viku minnti flugstjórinn okkur öll á að spritta okkur og sagði að hann og hans fjölskylda hefðu öll fengið covid í vor - og hefðu mjög gjarnan viljað vera án þeirrar lífsreynslu.

Þannig að kæru vinir, gerum okkar besta í þessu verkefni. Við höfum hingað til sýnt ótrúlegan árangur í baráttunni við veiruna - og það munum við gera aftur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert