Rífa þurfi húsnæði Fossvogsskóla

Fossvogsskóli.
Fossvogsskóli. mbl.is/Hallur Már

Valgerður Sigurðardóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, telur að rífa þurfi húsnæði Fossvogsskóla vegna myglu. Móðir stúlku í skólanum segir dóttur sína enn fyrir einkennum myglu í skólanum.

Fréttablaðið greinir frá því að ráðist hafi verið í miklar framkvæmdir síðasta árið, nú síðast í sumar til að uppræta myglu. Áttu framkvæmdirnar í sumar að tryggja að loftgæði í skólanum væru heilnæm. 

Valgerður telur lausnina á mygluvanda í Fossvogsskóla vera nýtt húsnæði. „Tveimur dögum eftir að börnin byrjuðu í skólanum var aftur farið á stúfana og aftur farið að leita. Þá fannst mygla inni á salerni þrátt fyrir allar þær endurbætur sem var búið að ráðast í. Ég get ekki metið það öðruvísi en að þetta húsnæði sé ónýtt og þurfi að rífa. Ég held að við náum aldrei öðruvísi að koma í veg fyrir þetta,“ segir Valgerður. 

Jónína Sigurðardóttir, móðir stúlku í Fossvogsskóla sem Fréttablaðið ræddi við, segir að dóttir hennar finni fyrir einkennum í húsnæðinu eftir að skólastarf hófst að nýju í haust. Hún hafi áhyggjur af heilsu hennar til framtíðar. 

„Þetta tekur rosalega á mann sem foreldri, mér ber lagaleg skylda til að senda hana í umhverfi sem er heilsuspillandi fyrir hana. Það leggst mjög þungt á sálina,“ segir Jónína. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert