Verði að byggja nýtt hús ef uppfylla eigi kröfur

Allir innan starfshópsins voru sammála um Laugardal sem fyrsta val …
Allir innan starfshópsins voru sammála um Laugardal sem fyrsta val fyrir staðsetningu Þjóðarleikvangs. Hér má sjá Laugardalshöll. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

„Eng­in mann­virki á Íslandi upp­fylla þær kröf­ur sem gerðar eru til sér­sam­banda vegna alþjóðlegra keppna eða lands­leikja í hand­knatt­leik og körfuknatt­leik. Til að upp­fylla alþjóðleg­ar kröf­ur verður að byggja nýtt mann­virki.“

Þetta er á meðal þess sem kem­ur fram í skýrslu starfs­hóps um þjóðarleik­vang fyr­ir inn­iíþrótt­ir.

All­ir inn­an starfs­hóps­ins voru sam­mála um Laug­ar­dal sem fyrsta val fyr­ir staðsetn­ingu Þjóðarleik­vangs.

„Mik­il­væg­ast að mati starfs­hóps­ins er að mann­virkið nýt­ist fyrst og fremst sem íþrótta­hús enda yrði það byggt sem þjóðarleik­vang­ur. Ef horft er til mögu­leika á margþættri notk­un húss­ins mun það auka tekju­mögu­leika við rekst­ur. Þá mun slíkt mann­virki vera hvatn­ing til al­mennr­ar lýðheilsu og gefa öll­um tæki­færi til að stunda hreyf­ingu. Þá er horft til þess að mann­virkið geti hýst stóra tón­leika eða aðra menn­ing­ar­viðburði.“

Næst á dag­skrá að „grípa skófl­una“

Mennta- og menn­ing­ar­málaráðherra skipaði um­rædd­an starfs­hóp og var mark­mið hans að afla upp­lýs­inga um kröf­ur sem gerðar eru til mann­virkja sem hýsa alþjóðlega leiki og mót auk þess að greina þarf­ir fyr­ir slíkt mann­virki hér­lend­is. Í starfs­hóp­inn voru skipaðir full­trú­ar úr mennta- og menn­ing­ar­málaráðuneyt­inu, Reykja­vík­ur­borg, Íþrótta- og Ólymp­íu­sam­band Íslands (ÍSÍ) auk full­trúa Hand­knatt­leiks­sam­bands Íslands og Körfuknatt­leiks­sam­bands Íslands.

„Við horf­um til þess að efla mjög innviðafjár­fest­ing­ar og nú hafa starfs­hóp­ar skilað grein­ingu á ólík­um sviðsmynd­um fyr­ir bæði inn­iíþrótt­ir og knatt­spyrnu. Stór hluti und­ir­bún­ings­vinnu er kom­inn vel á veg og mik­il­vægt að huga að næstu skref­um. Fram und­an er að tryggja fjár­mögn­un og sam­vinnu við okk­ar helstu sam­starfsaðila, ráðast í hönn­un og grípa skófl­una og byggja framtíðarleik­vanga fyr­ir landslið Íslend­inga, íþróttaunn­end­ur og iðkend­ur á öll­um aldri,“ er haft eft­ir Lilju Al­freðsdótt­ur mennta- og menn­ing­ar­málaráðherra í til­kynn­ingu.

„Starfs­hóp­ur­inn aflaði gagna frá Íþrótta- og Ólymp­íu­sam­bandi Íslands (ÍSÍ) og þeim sér­sam­bönd­um sem mestra hags­muna hafa að gæta við nýt­ingu þjóðarleik­vangs. Skoðaðar voru alþjóðleg­ar kröf­ur sem eiga við um íþrótta­mann­virki í hand­knatt­leik og körfuknatt­leik og einnig skoðuð grein­ing ÍSÍ og sér­sam­banda um æf­ingaþörf landsliða Íslands í öll­um ald­urs­flokk­um helstu bolta­greina auk fim­leika. Verkís verk­fræðistofa var feng­in til þess að gera kostnaðarmat á bygg­ingu mann­virk­is ásamt því að leggja mat á rekstr­ar­kostnað, þar sem mið var tekið af nýreistri íþrótta­höll í Þránd­heimi í Nor­egi sem tek­ur 8600 manns í sæti“, seg­ir í sömu til­kynn­ingu um starfs­hóp­inn.

Hann mun starfa áfram og gera ná­kvæm­ari grein­ingu á rekstri og tekju­mögu­leik­um fyr­ir þjóðarleik­vang inn­iíþrótta.

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert