Aspadeilu á Arnarnesi lauk með sýknu

Hér má sjá Arnarnes úr fjarska.
Hér má sjá Arnarnes úr fjarska. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Fyrr­ver­andi sjón­varpsþula þarf ekki að fella 7-12 metra há tré, þar á meðal asp­ir, í garði sín­um líkt og ná­grann­ar henn­ar á Arn­ar­nesi í Garðabæ höfðu kraf­ist í dóms­máli sem þau höfðuðu á hend­ur henni. Að sögn þul­unn­ar, Ragn­heiðar El­ín­ar Clausen, þjóna trén m.a. því hlut­verki að skýla stofu­glugga henn­ar, sem snýr beint að garði ná­grann­anna. 

Ragn­heiður var sýknuð af kröf­um ná­granna sinna í Héraðsdómi Reykja­ness í dag og þeir dæmd­ir til að greiða henni 800.000 krón­ur í máls­kostnað.

Ná­grann­arn­ir kröfðust þess aðallega að Ragn­heiður yrði dæmd til að klippa all­an trjá­gróður, hvaða nöfn­um sem hann nefn­ist, á lóð henn­ar inn­an við 4 metra frá lóðamörk­um. Til vara kröfðust ná­grann­arn­ir þess að Ragn­heiður yrði dæmd til að klippa all­an trjá­gróður, hvaða nöfn­um sem hann nefn­ist, á lóð sinni við lóðamörk fast­eign­ar þeirra.

Ná­grann­arn­ir vildu meina að tré Ragn­heiðar skyggðu á út­sýni ná­grann­anna yfir Esj­una, Snæ­fells­jök­ul og Kópa­vogs­kirkju sem þeir töldu víst að fylgdi með fast­eign­inni sem þau festu kaup á árið 2017. Ragn­heiður hef­ur átt sína fast­eign frá ár­inu 1998.

Gert að fjar­lægja gróður

Trén voru að lík­ind­um gróður­sett áður en bygg­ing­ar­reglu­gerðir sem bönnuðu svo há tré ná­lægt lóðarmörk­um, nema með samþykki eig­enda beggja lóða, tóku gildi. Í dómn­um er Ragn­heiður sögð nátt­úru­unn­andi sem „nyti þess að hafa göm­ul og glæsi­leg tré í garði sín­um“.

Þrátt fyr­ir sýknu er Ragn­heiði gert að klippa eða fjar­lægja þann trjá­gróður sem vaxið hef­ur yfir lóðamörk­in ell­egar greiða 30.000 króna sekt dag­lega til ná­grann­anna. Ragn­heiður fær þrjá mánuði til að verða við því. 

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert