Fimm barna faðir fær ekki vinnu á leikskóla

Andy ásamt fjórum af fimm börnum þeirra Heiðu.
Andy ásamt fjórum af fimm börnum þeirra Heiðu. Ljósmynd/Aðsend

Bresk­ur fimm barna faðir sem tal­ar ís­lensku hef­ur sótt um störf á leik­skól­um Reykja­vík­ur­borg­ar í rúma tvo mánuði, tak­mörkuð svör fengið og ekk­ert starf. Unn­usta hans seg­ir að það skjóti skökku við að á meðan störf á leik­skól­um séu aug­lýst og deild­um lokað vegna veik­inda starfs­manna fái unnusti henn­ar lít­il sem eng­in viðbrögð við um­sókn­um sín­um. 

Parið, Heiða Ingimars­dótt­ir og Andy Morg­an, fluttu til Íslands fyr­ir um tveim­ur mánuðum síðan en þau hafa verið bú­sett í Englandi um tíma þar sem Heiða stundaði nám og Andy starfaði í viðskipta­líf­inu. Andy hef­ur áður búið hér á landi, sam­tals í þrjú ár og starfaði hann þá í ferðamannaiðnaðnum. Hann er um fimm­tugt og hafði hug á að skipta um starfs­vett­vang og sækja í skemmti­legt vinnu­um­hverfi þar sem ís­lenska væri töluð. Því lang­ar hann helst að fá að starfa á leik­skóla.

Á heim­ili Heiðu og An­dys er töluð ís­lenska, hann hef­ur sótt þrjú ís­lensku­nám­skeið og voru hjón­in með ís­lenska au pair þegar þau bjuggu á Englandi. Auk ís­lensku og ensku tal­ar Andy frönsku og spænsku. 

„Nú gef­ur Reykja­vík­ur­borg sig út fyr­ir það að starfs­menn­irn­ir eigi a spegla flóru borg­ar­inn­ar. Eru eng­ir fjöltyngd­ir miðaldra karl­menn bú­sett­ir í Reykja­vík­ur­borg?“ spyr Heiða í sam­tali við mbl.is. 

Gefið í skyn að aug­lýs­ing­arn­ar væru forms­atriði

Þegar Andy fékk ekki nema eitt boð í viðtal eft­ir að hafa sótt um á fjöl­mörg­um leik­skól­um ákvað Heiða að hafa sam­band við borg­ina. Þar fékk hún ábend­ingu um að það gæti verið heppi­legt fyr­ir Andy að skrá sig á af­leys­inga­stofu Reykja­vík­ur­borg­ar en í hana geta leik­skól­ar sótt þegar starfs­menn vant­ar. Það gerði hann en hef­ur enn ekki fengið nein svör. 

Fjöldi starfa leik­skóla­kenn­ara og leik­skóla­leiðbein­anda er aug­lýst­ur á vef Reykja­vík­ur­borg­ar. Heiðu var tjáð að mörg þess­ara starfa væru mönnuð nú þegar og var gefið í skyn að aug­lýs­ing­arn­ar væru bara forms­atriði. 

„Það er víst þannig að ef þú ert með leiðbein­anda í starfi þarft þú að aug­lýsa starfið. Ef þú færð ekki menntaða mann­eskju í starfið þá fær þessi leiðbein­andi ann­an árs samn­ing. Þá þarf aft­ur að aug­lýsa. Ef það fæst eng­inn í starfið fær leiðbein­and­inn framtíðarstarf,“ seg­ir Heiða.

Andy og Heiða á góðri stundu.
Andy og Heiða á góðri stundu. Ljós­mynd/​Aðsend

Skól­inn sagður full­mannaður en starf aug­lýst

Hún setti inn færslu á Face­book um málið í morg­un og fékk þá ábend­ingu um að deild á leik­skóla dótt­ur þeirra An­dys hafi verið lokað vegna veik­inda starfs­fólks. Það hafi gerst ít­rekað og þar er aug­lýst starf. Andy hafði sótt um starf á þess­um sama leik­skóla en fengið þau svör að það væri full­mannað. Þegar Heiða spurði leik­skóla­stjór­ann hvers vegna af­leys­inga­stof­an væri ekki nýtt í til­fell­um sem þess­um var henni tjáð að starfs­fólk inn­an henn­ar vildi ekki hoppa inn í vinnu í einn eða tvo daga. 

„Mér þykir það svo­lítið und­ar­legt. Í fyrsta lagi er þetta fólk að bjóða sig fram í af­leys­ing­ar og í öðru lagi sótti maður­inn minn um hjá þeim og er til­bú­inn í að hoppa inn hvenær sem er sama til hversu langs tíma,“ seg­ir Heiða. 

„Fólki virðist vera mis­saga inn­an stjórn­sýsl­unni, al­veg frá Reykja­vík­ur­borg og niður í stjórn­end­ur leik­skóla.“

„Rosa­lega virk­ur fimm barna faðir“

Heiða velt­ir því fyr­ir sér hvort ald­ur og kyn An­dys sé helsta ástæðan fyr­ir því að hann fái ekki starf á leik­skóla. Þó hann hafi ekki unnið með börn­um áður er hann, eins og áður seg­ir fimm barna faðir og eru tvö börn þeirra Heiðu á leik­skóla­aldri. 

„Þetta er ekki eins og hann sé óvan­ur börn­um,“ seg­ir Heiða. Þau bjuggu í Englandi þegar öllu var skellt í lás þar. Þá fékk Heiða vinnu en Andy var sett­ur á hluta­bæt­ur og sam­kvæmt regl­um sem þeim fylgja í Englandi mátti hann ekki vinna. Því sinnti hann börn­un­um sem fengu ekki að fara í skól­ann á tíma­bil­inu. 

„Hann tók hit­ann og þung­ann af því að fara út með alla, kenna þeim, halda þeim virk­um og hafa ofan af fyr­ir þeim. Við erum með mjög strang­ar skjá­regl­ur á heim­il­inu þannig að það þarf að hafa ofan af fyr­ir þeim. Það er ekki eins og hann sé ein­hver óvirk­ur pabbi með eitt barn. Hann er rosa­lega virk­ur fimm barna faðir.“

Heiða seg­ir að vegna skorts á svör­um sé Andy nú byrjaður að sækja um önn­ur störf en hann langi mest að vinna á leik­skóla. 

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert