Nýlegar loftmyndir sem voru teknar af Siglufjarðarvegi sýna að vegarstæðið er „hrikalegt“ og lítið má út af bregða svo að illa fari.
Þetta kemur fram í frétt Trölla.is. Þar eru birtar myndir sem Jón Ólafsson flugmaður tók í sumar.
„Það er mál manna að ekki sé spurning um hvort heldur hvenær Siglufjarðarvegur rofnar og raddir þeirra sem vilja fá jarðgöng á milli Fljóta og Siglufjarðar eru að verða æ háværari,“ segir í fréttinni.
Þar kemur fram að mikil hætta sé á jarðsigi, skriðuföllum, grjóthruni og snjófljóðum, auk þess sem vegurinn sé oft ófær.