Lögmaður bjartsýnn á að gáleysi verði dæmt

Bjørn Gulstad er lögmaður Gunnars Jóhanns Gunnarssonar. Hér er hann …
Bjørn Gulstad er lögmaður Gunnars Jóhanns Gunnarssonar. Hér er hann fyrir utan réttarsal í Vadsø í Noregi í gær, á tali við fjölmiðla. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

„Ég er þess fullviss að dómendur komist að þeirri niðurstöðu að þarna hafi verið um hreint slys að ræða og Gunnar hafi ekki ætlað sér að ráða hálfbróður sínum bana.“

Þetta sagði Bjørn Andre Gulstad, verjandi Gunnars Jóhanns Gunnarssonar, í samtali við Morgunblaðið í gærkvöldi.

Aðalmeðferð í máli Gunnars, sem ákærður er fyrir að hafa skotið hálfbróður sinn, Gísla Þór Þórarinsson, til bana að morgni laugardagsins 27. apríl í fyrra, í Mehamn, einni af nyrstu byggðum Noregs, var fram haldið í gær í Héraðsdómi Austur-Finnmerkur í Vadsø.

„Ekkert af því sem hann hefur lagt fram kemur mér neitt á óvart,“ sagði Gulstad, inntur eftir því hvort Torstein Lindquister, sem sækir málið fyrir hönd héraðssaksóknara Troms og Finnmerkur, hafi lagt fram einhver gögn í málinu sem veiki málstað Gunnars Jóhanns og verjanda hans.

„Þetta var slys“

„Skjólstæðingur minn á um verulega sárt að binda, það sem gerðist í Mehamn var slys eins og hann greindi réttinum skýrt frá í framburði sínum í gær,“ sagði verjandinn og vísaði þar til tæplega þriggja klukkustunda framburðarskýrslu Gunnars Jóhanns fyrir Kåre Skognes héraðsdómara og tveimur meðdómendum hans síðdegis á mánudag.

„Þau gögn sem [norska rannsóknarlögreglan] Kripos mun leggja fram á morgun [í dag] munu enn fremur renna stoðum undir sakleysi Gunnars, ég treysti því fullkomlega að lögreglan hafi gengið þar hreint til verks. Gunnar ætlaði sér ekki að ráða bróður sinn af dögum, ætlun hans var að skjóta honum skelk í bringu og fá hann til að enda samband sitt við barnsmóður og fyrrverandi eiginkonu Gunnars, þar lá ásetningur hans og hvergi annars staðar.“

Í mesta lagi sex ár

Segist Gulstad vænta þess að dómurinn yfir Gunnari hljóði upp á sex ár í mesta lagi, ekki manndráp af ásetningi sem ákæra Lindquister krefst.

Mette Yvonne Larsen, réttargæslumaður Elenu Undeland og barna þeirra Gunnars Jóhanns, lét í veðri vaka í samtali við mbl.is í lok janúar að Gunnar hlyti 14 ára dóm hið minnsta, menn kæmu ekki á vettvang með haglabyssu nema þeim gengi misgott til.

„Þú kemur ekki með hlaðið skotvopn ef þú ætlar ekki að gera neitt,“ sagði Larsen á sínum tíma við mbl.is.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert