Lýsir yfir vantrausti á varaformann stjórnar LIVE

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR.
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ragn­ar Þór Ing­ólfs­son, formaður VR, hef­ur lýst yfir van­trausti á Guðrúnu Haf­steins­dótt­ur, vara­formann stjórn­ar Líf­eyr­is­sjóðs versl­un­ar­manna (LIVE) og formann Lands­sam­taka líf­eyr­is­sjóða, vegna um­mæla henn­ar í tengsl­um við hluta­fjárút­boð Icelanda­ir.

Í face­book­færslu fagn­ar hann því að Icelanda­ir sé komið fyr­ir vind og ósk­ar starfs­fólki og stjórn­end­um til ham­ingju með vel heppnað útboð.

Aft­ur á móti seg­ist hann vera ósátt­ur við um­mæli og ásak­an­ir í hans garð, stjórn­ar VR og stjórn­ar­manna VR hjá LIVE eft­ir að stétt­ar­fé­lagið ákvað að taka ekki þátt í hluta­fjárút­boði Icelanda­ir.

Vís­ar hann í viðtal við Guðrúnu á Vísi þar sem hún harm­ar að LIVE hafi ekki tekið þátt í útboðinu og tel­ur hann að fjár­mála­eft­ir­litið eigi að gera at­huga­semd­ir við um­mæl­in.

Guðrún Hafsteinsdóttir.
Guðrún Haf­steins­dótt­ir.

„Það er með mikl­um ólík­ind­um hvernig Guðrún Haf­steins­dótt­ir, formaður Lands­sam­taka líf­eyr­is­sjóða og vara­formaður stjórn­ar LIVE, hef­ur stigið fram með ásak­an­ir og dylgj­ur vegna þeirr­ar ákvörðunar LIVE að taka ekki þátt í hluta­fjárút­boðinu,“ seg­ir hann og bæt­ir við:

„Í ljósi stöðu sinn­ar og fyrri yf­ir­lýs­inga hlýt­ur fjár­mála­eft­ir­litið að kom­ast að þeirri niður­stöðu að Guðrún Haf­steins­dótt­ir sé van­hæf til að sitja í stjórn líf­eyr­is­sjóðs með því að rétt­læta fjár­fest­ingu í Icelanda­ir vegna þess hversu lítið hlut­fall hún er af heild­ar­eign­um.“

Skor­ar hann á fjár­mála­eft­ir­litið að taka um­mæli henn­ar til skoðunar og meta hana óhæfa til að taka ákv­arðanir um fjár­fest­ing­ar fyr­ir hönd sjóðsfé­laga LIVE.



mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert