Segja má að skollið sé á verðstríð á þremur sjálfsafgreiðslustöðvum olíufélaganna á Akureyri. Atlantsolía tilkynnti á mánudag um lækkun á bensínlítranum niður í 185,5 krónur á stöð sinni við Baldursnes.
Dísillítrinn fór niður í 181,5 krónur. Er þetta sama verð og Atlantsolía hefur boðið viðskiptavinum sínum í Kaplakrika, að því er fram kemur í umfjöllun um verðstríðið í Morgunblaðinu í dag.
Í kjölfarið brugðust Orkan og ÓB við á Akureyri og lækkuðu sitt eldsneytisverð; Orkan á Mýrarvegi og ÓB við Hlíðarbraut. Eru félögin þrjú nú með verðið á sömu slóðum og hefur viðgengist á stöðvum á höfuðborgarsvæðinu í nágrenni við Costco í Garðabæ. Þar hefur lægsta verðið verið í boði á stöðvum sem krefjast ekki afsláttarkorta eða lykla.