Allsherjarþing sameinuðu þjóðanna stendur nú yfir í höfuðstöðvum samtakanna í New York. Faraldur kórónuveirunnar setur að sjálfsögðu sinn svip á þinghaldið. Mun færri fulltrúar sitja þingið en alla jafna og viðstaddir bera andlitsgrímu. En það breytist ekki að fundarhamarinn Ásmundarnautur er á sínum stað í þingsalnum, gjöf Íslendinga til samtakanna. Hefð er fyrir því að forseti þingsins hverju sinni taki við hamrinum sem tákni um að hann hafi tekið við stjórn þingsins.
75. allsherjarþing SÞ var sett með formlegum hætti í síðustu viku. Við setninguna var Volkan Bozkir settur formlega í embætti forseta allsherjarþingsins en hann tók við fundarhamrinum og gjöf Íslands, Ásmundarnaut, úr hendi Tijjanis Muhammad-Bandes, fráfarandi forseta.
Hamarinn er nefndur eftir Ásmundi Sveinssyni sem skar út hamar sem Ísland afhenti Sameinuðu þjóðunum að gjöf árið 1952. Sá hamar brotnaði og árið 2005 færði Ísland SÞ annan hamar, sem er eftirlíking af hinum fyrri. Sigríður Kristjánsdóttir, Sigga á Grund í Villingaholtshreppi, skar út þann hamar.
„Hann er í notkun og er raunar ánægjulegt að geta skýrt frá því að þegar nýr forseti allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna tekur verið störfum á hausti hverju gerist það með þeim táknræna hætti að fráfarandi forseti þingsins afhendir hinum nýkjörna hamarinn góða, gjöf Íslands, Ásmundarnaut,“ segir á heimasíðu utanríkisráðuneytisins.
Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag.