Sérstök uppákoma varð við upphaf málflutnings í Mehamn-málinu við Héraðsdóm Austur-Finnmerkur í Vadsø í morgun þegar Bjørn Andre Gulstad, verjandi Gunnars Jóhanns Gunnarssonar, ákærða í málinu, krafðist þess að Torstein Lindquister saksóknari breytti eða drægi til baka ákæru sína á hendur Gunnari, sem hljóðar upp á manndráp af ásetningi, og ákærði þess í stað fyrir manndráp af gáleysi.
Bauð Gulstad fram að málið yrði þá að svokölluðu játningarmáli, tilståelsessak á norsku, og Gunnar játaði þá undanbragðalaust að hafa ráðið Gísla Þór hálfbróður sínum bana af gáleysi og hafi eingöngu ætlað að skjóta honum skelk í bringu með því að bíða hans á heimili hans vopnaður haglabyssu snemma morguns 27. apríl í fyrra.
Á mánudag, við upphaf framburðarskýrslu Gunnars, lýsti ákærði sig þegar sekan um manndráp af gáleysi þar sem búast mætti við að hámarki sex ára fangelsisrefsingu og hefur Gulstad verjandi róið öllum árum að því í vikunni að sýna fram á að ásetningsstig skjólstæðings hans hafi ekki staðið til þess að stytta Gísla Þór aldur morguninn örlagaríka.
Lindquister saksóknari neitaði að breyta ákærunni, embætti hans stæði við fyrsta atriði ákærunnar, að um manndráp af ásetningi hefði verið að ræða, og lauk umræðu um þessa kröfu verjanda án þess að Kåre Skognes héraðdómari tæki afstöðu í málinu.
Fyrir dómi í morgun hefur verið reynt að varpa ljósi á andlegt ástand Gunnars morguninn sem honum er gefið að sök að hafa orðið hálfbróður sinum að bana og hafa auk tveggja geðlækna tveir Norðmenn, sem voru viðstaddir teiti á heimili Gunnars í Mehamn, gefið skýrslu um hvernig þeir upplifðu ástand ákærða.
Töldu báðir geðlæknarnir að Gunnar hefði, á þeirri stundu sem hann fór inn á heimili Gísla Þórs hálfbróður síns, verið í ástandi til að skilja hvað hann hefði verið að gera og hverjar afleiðingar heimsóknar hans hefðu getað orðið.
Vitnin tvö, sem voru stödd í gleðskapnum með Gunnari umrædda nótt, báru að hann hefði verið í miklu tilfinningalegu uppnámi og kváðust bæði vitnin hafa velt því fyrir sér eftir á hvort þau hefðu getað gert meira til að telja Gunnari hughvarf og telja hann af því að fara heim til Gísla Þórs að morgni 27. apríl.
Þegar þetta er skrifað svarar H, heimilislæknir Gunnars, spurningum saksóknara og verjanda símleiðis og greinir H frá því að sjúklingur hans hafi greint honum frá sjálfsvígshugleiðingum, hafi honum þar einkum orðið tíðrætt um að hengja sig, auk þess sem Gunnar hafi rætt áfengisvandamál sitt og fjárhagsvandræði.
Kveður H Gunnar enn fremur hafa rætt erfiða upplifun sína í barnæsku, meðal annars vegna veikinda móður, og greint frá því að auk vandamála í tengslum við áfengi og vímuefni þjáðist hann af tvíhverfri lyndisröskun (bipolar disorder) auk ofvirkni með athyglisbresti eða ADHD.
Greinir H ítarlega frá samtölum sínum við Gunnar og kveður honum einkum hafa verið þyngt eftir heimsókn til Íslands yfir jól og áramót árið 2018. Segir H Gunnar hafa lagt mikla áherslu á að hann óskaði þess öllu fremur að koma lífi sínu á réttan kjöl og einbeita sér að sjómennskunni sem hafi átt hug hans allan.
Segir H enn fremur frá samskiptum sínum við Gunnar í apríl í fyrra, dagana áður en Gunnar var að eigin ósk lagður inn á geðdeild í Karasjok. Gunnar hafi þá vitað af sambandi barnsmóður hans og hálfbróður og átt ákaflega erfitt, fótunum hafi hreinlega verið kippt undan honum. Hafi hann rætt hugsanir sínar um að gera hálfbróður sínum mein og hafi H haft af þeim hugsunum verulegar áhyggjur og þá aðstoðað Gunnar við að komast inn á deildina í Karasjok.
Eins og Gunnar greindi frá framburði sínum á mánudag fékk hann ekki þá hjálp í Karasjok sem hann vonaðist eftir, þar hefði enginn geðlæknir verið á þeim tíma, aðeins „einhverjir stuðningsfulltrúar. Ég grét stanslaust og þau grétu bara með mér,“ sagði Gunnar frá á mánudag eins og mbl.is greindi frá.