Ekkert komi algjörlega í veg fyrir smit

„Allt sem er verið að gera lágmarkar líkurnar á því …
„Allt sem er verið að gera lágmarkar líkurnar á því að smit dreifist en ekkert sem við gerum kemur algjörlega í veg fyrir það,“ segir Þórólfur. mbl.is/Íris Jóhannsdóttir

Sama afbrigði kórónuveirunnar hefur greinst í smituðum einstaklingum undanfarið en sóttvarnalæknir segir það ranga nálgun að rekja smitin til einstakra ferðamanna. Afbrigði veirunnar sem greinist nú greindist einnig hjá frönskum ferðamönnum.

„Þetta er bara sama gerð af veiru. Við erum hins vegar ekkert að ræða um það hver smitaði hvern eða hvernig þetta barst á milli. Það er ekki raunhæft að vera að gera það. Það er bara til þess að búa til einhverjar nýjar umræður um einstaklinga og þjóðerni sem er ekki skynsamlegt,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.

Þórólfur sagði áður í samtali við Vísi að erfitt hefði reynst að fá frönsku ferðamennina til að fylgja reglum en staðfesti ekki að þeir hefðu brotið sóttvarnareglur.

Smitum hefur fjölgað mikið innanlands síðustu vikuna. 33 greindust smitaðir í gær.

Værum við ekki að horfa upp á minni smitfjölda ef einhverjir hefðu látið það vera að brjóta sóttvarnareglur?

„Það þarf ekkert endilega að vera. Allt sem er verið að gera lágmarkar líkurnar á því að smit dreifist en ekkert sem við gerum kemur algjörlega í veg fyrir það,“ segir Þórólfur. 

„Ég held að við eigum alls ekki að fara út í það þegar einhver veira fer að dreifast að það sé einhverjum að kenna vegna þess að einhver hafi brotið eitthvað eða gert eitthvað stórt af sér. Það er ekki rétt nálgun að mínu mati.“

Vinnur að minnisblaði

Samt er væntanlega mikilvægt að fólk fylgi reglum? 

„Algjörlega. Það er ekki þar með sagt að menn hafi endilega brotið reglur eða gert eitthvað stórkostlega rangt af sér.“

Þórólfur vinnur nú að minnisblaði hvar hann mun leggja til nýjar reglur til að lágmarka útbreiðslu smita kórónuveiru hérlendis. Núverandi reglur falla úr gildi á mánudag en í þeim er m.a. kveðið á um 200 manna samkomutakmörk, eins metra nándarreglu og hefur börum og krám verið lokað fram á mánudag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert