„Gjörsamlega í rusli yfir þessu“

Fólk getur lagt ólíkan skilning í það sem það sér.
Fólk getur lagt ólíkan skilning í það sem það sér. mbl.is/Brynjar Gauti

Tvær grímur fóru að renna á konu nokkra á höfuðborgarsvæðinu þegar hún fékk skilaboð og hringingar frá fjölda áhyggjufullra og dómharðra vina eftir að grín vinkonu hennar fór úr böndunum.

Hafði vinkonan stofnað svokallaða hópfjármögnunarsíðu eftir að konan tjáði vinkonu sinni að hún þyrfti að selja annan af tveimur bílum fjölskyldunnar og er bíllinn í dýrari kantinum. Vinkonan taldi sig vera að gera augljóst grín ætlað innsta hring en annað kom á daginn.

„Ég er búin að vera með í maganum síðan í gær. Þetta var rosafyndið í fyrradag þegar ég sagði vinkonu minni að ég þyrfti að selja bílinn minn. Hún sagði „guð minn góður, ég þarf að setja á fót allsherjarsöfnun fyrir þig“, segir konan, sem ekki vill láta nafns getið, í Morgunblaðinu í dag.

Hún segir að hópfjármögnunarsíðan hafi fengið að standa fram á kvöld og henni verið deilt á Instagram en svo hafi hún verið tekin niður. Taldi hún framsetninguna þess eðlis að allir myndu átta sig á því að hér væri um grín að ræða. „Ég er í vinnu og hef það ágætt. Meira að segja mömmu fannst þetta fyndið þangað til fólk fór að hringja. Þetta var einfaldlega grín sem gekk allt of langt.“

Á hópfjármögnunarsíðunni var mynd af konunni með börnum sínum og tekið fram að greiða ætti niður námslán með söfnuninni en konan segir að námslán hennar og eiginmannsins séu þegar greidd og því hafi þetta verið algjörlega úr lausu lofti gripið. „Ég er gjörsamlega í rusli yfir þessu. Þetta var rosalega fyndið í svona korter,“ segir konan.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert